Enski boltinn

Gagnrýnir leikmenn United: Setja inn færslur um fatalínur og rakspíra eftir tapleiki

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rooney skoraði 253 mörk fyrir Manchester United.
Rooney skoraði 253 mörk fyrir Manchester United. vísir/getty
Wayne Rooney, markahæsti leikmaður í sögu Manchester United, gagnrýnir hugarfar sumra leikmanna liðsins.

United endaði í 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar á nýafstöðnu tímabili og komst ekki í Meistaradeild Evrópu. José Mourinho var rekinn skömmu fyrir jól og við tók Ole Gunnar Solskjær. Eftir góða byrjun undir stjórn þess norska fór að halla undan fæti og United var án sigurs í síðustu fimm deildarleikjum sínum.

Rooney segir að hugarfar sumra leikmanna United sé ekki nógu gott og forgangsröðunina sé ekki rétt hjá þeim.

„Eftir tapleiki setja leikmenn inn færslur á samfélagsmiðla um nýju fatalínuna sína, nýja rakspírann og hvað eina sem mér finnst ótrúlegt,“ sagði Rooney sem leikur með DC United í Bandaríkjunum.

Hann yfirgaf United 2017 eftir tólf ár dvöl hjá félaginu. Rooney skoraði 253 mörk í 559 leikjum fyrir United. Hann bætti markamet Sir Bobbys Charlton í janúar 2017.

Rooney vann allt sem hægt var að vinna sem leikmaður United, þ.á.m. Englandsmeistaratitilinn fimm sinnum og Meistaradeild Evrópu einu sinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×