Innlent

Fá lóðir undir fjölda íbúða í Skerjafirði

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Pétur Marteinsson.
Pétur Marteinsson.
Borgarráð samþykkti í liðnum mánuði að veita félagi í eigu meðal annars Hauks Guðmundssonar og Péturs Marteinssonar lóðavilyrði til uppbyggingar á íbúðum fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur í Skerjafirði. Er Kvika banki sagður áhugasamur um að fjármagna verkefnið.

Gert er ráð fyrir því að allt að 72 íbúðir verði reistar á umræddri lóð í Skerjafirði en félagið sem hefur fengið lóðavilyrðið, HOOS, sem er að fullu í eigu Frambúðar, hefur undanfarið átt í viðræðum við fulltrúa Reykjavíkurborgar um uppbygginguna.

Frambúð er að helmingi í eigu Hauks Guðmundssonar fjárfestis en Pétur Marteinsson og Guðmundur Kristján Jónsson fara báðir með fjórðungshlut í félaginu, að því er fram kemur í minnisblaði sem KPMG tók saman að beiðni Reykjavíkurborgar.

Í minnisblaðinu segir jafnframt að Kvika banki, ráðgjafi Frambúðar, sé áhugasamur um að fjármagna framkvæmdina, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, en áætlaður byggingarkostnaður er um 1,6 milljarðar króna.

Við mat á ætluðu eiginfjárframlagi Frambúðar er gert ráð fyrir að allar íbúðir verði afhentar í fyrsta áfanga og að verð fyrir 41 fermetra íbúð verði 28 milljónir króna. Er þannig áætlað heildarsöluverðmæti íbúðanna um tveir milljarðar króna.

Enn fremur kemur fram að Frambúð muni bjóða kaupendum brúarlán fyrir allt að tíu prósentum af kaupverði sem ekki yrði tryggt með veði í eigninni. Á móti mun félagið eiga forkaupsrétt að íbúðum á upprunalegu kaupverði þar til brúar­lánið hefur verið greitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×