Innlent

Landvernd vill hvorki stærri Keflavíkurflugvöll né fleiri ferðamenn

Sighvatur Jónsson skrifar
Landvernd telur ekki rétt að stuðla að frekari fjölgun ferðmanna hér á landi. Frekar þurfi að draga úr flugi vegna mikilla umhverfisáhrifa þess.
Landvernd telur ekki rétt að stuðla að frekari fjölgun ferðmanna hér á landi. Frekar þurfi að draga úr flugi vegna mikilla umhverfisáhrifa þess. Fréttablaðið/Anton Brink
Umhverfisverndarsamtökin Landvernd leggjast gegn því að Keflavíkurflugvöllur verði stækkaður frekar vegna umhverfisáhrifa sem það hefði í för með sér. Þetta ályktaði aðalfundur félagsins í gær. Framkvæmdastjóri samtakanna segir að draga verði úr flugi, engin ástæða sé til þess að ýta undir frekari fjölgun ferðamanna til landsins. Þá hvetur Landvernd ríkisstjórnina til að lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum.

Á aðalfundi Landverndar í gær lagði stjórn samtakanna fram nokkrar tillögur í umhverfismálum. Fjalla þær meðal annars um verndun víðernis landsins og bann við hvalveiðum.

Skorað var á ríkisstjórn Íslands að lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum. Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, gagnrýnir að aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum sé hvorki tímasett né magnbundin. Erfitt sé að vinna eftir þannig áætlunum.

Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar.
„Við samþykktum líka áætlun um að það yrði ekki farið í stækkun Keflavíkurflugvallar meðal annars með þeim rökum að loftslagsáhrifin eru gífurleg af svoleiðis stækkun. Sú stækkun kostar svakalega fjármuni á meðan aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar, sem á aðallega að fara í kolefnisbindingu en ekki að draga úr losun, er bara fjármögnuð upp á tæpa sjö milljarða á næstu fimm árum. Það skýtur svolítið skökku við,“ segir Auður.

Aðspurð um þörf á stærri flugvelli vegna fjölgunar ferðamanna segir Auður þvert á móti að draga þurfi úr flugi, það losi mikið af gróðurhúsalofttegundum. „Við eigum ekki bara að fljóta með varðandi fjölgun ferðamanna. Hingað til lands koma mjög margir ferðamenn og það er engin ástæða til þess að ýta frekar undir þá fjölgun.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.