Innlent

Landsmenn hafa mestar áhyggjur af spillingu og fátækt

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Landsmenn hafa áhyggjur af ýmsu en áhyggjur af loftslagsbreytingum hafa aukist mest á milli ára.
Landsmenn hafa áhyggjur af ýmsu en áhyggjur af loftslagsbreytingum hafa aukist mest á milli ára. vísir/vilhelm
Spilling í stjórnmálum og/eða fjármálum er það sem veldur landsmönnum mestum áhyggjum en áhyggjur af húsnæðismálum og heilbrigðisþjónustu fara minnkandi.

Þetta sýna niðurstöður könnunar MMR sem var framkvæmd dagana 11. til 15. febrúar síðastliðinn. Voru svarendur spurðir um hvaða þrjú atriði þeir höfðu mestar áhyggjur af á Íslandi eða í íslensku samfélagi.

Að því er fram kemur á vef MMR hafa 44 prósent landsmanna mestar áhyggjur af spillingu, 35 prósent nefndu fátækt og/eða félagslegan ójöfnuð, 35 prósent nefndu heilbrigðisþjónustu og 33 prósent húsnæðimál.

Áhyggjur af loftslagsbreytingum hafa svo aukist mest frá könnun ársins 2018. Loftslagsbreytingar voru nefndar af 20 prósent svarenda í könnuninni nú og nemur aukningin 11 prósentustigum.

„Þá hafa áhyggjur af sköttum (7 prósentustiga aukning), verðbólgu (6 prósentustiga aukning), fátækt og/eða félagslegum ójöfnuði (5 prósentustiga aukning) og efnahagslegu hruni/samdrætti (4 prósentustiga aukning) einnig aukist á milli ára.

Áhyggjur af menntun hafa minnkað mest af öllum málefnum eða um því sem nemur 13 prósentustigum frá könnun síðasta árs, úr 17% í 5%. Þá hafa áhyggjur af heilbrigðisþjónustu (9 prósentustig), glæpum og ofbeldi (6 prósentustig) og húsnæðismálum (4 prósentustig) einnig minnkað yfir sama tímabil,“ segir á vef MMR þar sem lesa má nánar um könnunina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×