Íslenski boltinn

Rúnar Páll: Við skorum alltaf mikið af mörkum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Rúnar Páll var ekki sáttur með stigið í kvöld.
Rúnar Páll var ekki sáttur með stigið í kvöld. Vísir/Daníel
„Ég get ekki sagt að ég sé voðalega sáttur. Það er sárt að fá á sig víti þegar það er ekkert að gerast í leiknum hjá Grindavík, það er dýrt. Þeir fá ekki eitt einasta færi í þessum leik og Halli þurfti ekki að verja einu sinni,“ sagði Rúnar Páll Sigmundsson þjálfari Stjörnunnar eftir jafnteflið í Grindavík í kvöld.

„Við stjórnum leiknum frá a-ö og síðan fá þeir víti og það er blóðugt. Þetta er annan leikinn í röð sem við fáum ekki nema eitt stig en svona er þetta bara,“ bætti Rúnar við en Stjarnan gerði jafntefli við KR í fyrsta leik en þá komu einnig bæði mörk leiksins úr vítaspyrnum.

Rúnar sagði að hans menn hefðu mátt gera betur í þeim hættulegu sóknum sem þeir sköpuðu.

„Við vorum ekki flinkir að nýta þau upphlaup sem við fáum, við fengum frábær upphlaup á vinstri kantinum í seinni hálfleik og nýttum þau ekki nógu vel. Við verðum að gera betur þar.“

„Menn verða að vera grimmari fyrir framan mark andstæðingsins, við komumst oft bakvið varnirnar en gerum ekki nógu vel með síðustu sendinguna. Aftur á móti spilum við vel í dag, stjórnum leiknum allan tímann en náðum bara að skora eitt mark og það var ekki nóg.“

Guðjón Baldvinsson fór útaf í hálfleik í dag eftir að hafa fengið höfuðhögg í fyrri hálfleiknum og sjálfur sagði Guðjón við blaðamann að hann hefði fengið heilahristing og verið óglatt í leikhléinu.

„Hann fékk eitthvað högg á höfuðið og er í ferli varðandi það.“

Rúnar Páll sagðist ekki hafa áhyggjur af því að Stjörnuliðið væri ekki búið að skora úr opnum leik í fyrstu tveimur umferðunum.

„Það er ekki áhyggjuefni eftir tvo leiki, ég hef engar áhyggjur af því. Ég veit að við skorum alltaf mikið af mörkum og það verður engin breyting á því í sumar, ég er alveg klár á því. Við erum með hörkulið og þurfum bara að halda áfram og mætum galvaskir með bros á vör gegn HK í næsta leik.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×