Erlent

Evrópuríki krefja tyrknesk stjórnvöld skýringa vegna kosninga

Kjartan Kjartansson skrifar
Erdogan hefur verið sakaður um að seilast til æ meiri valda í Tyrklandi.
Erdogan hefur verið sakaður um að seilast til æ meiri valda í Tyrklandi. Vísir/EPA
Evrópusambandið hefur krafið yfirkjörstjórn Tyrklands um skýringar á ákvörðun sinni um að láta kjósa aftur til borgarstjóra í Istanbúl. Stjórnarandstaðan vann óvæntan sigur í kosningunum en nú hefur verið ákveðið að láta endurtaka þær.

Réttlætis- og þróunarflokkur (AKP) Receps Erdogan forseta krafist þess að úrslit borgarstjórakosninganna í Istanbúl í síðasta mánuði væru úrskurðuð ógild vegna meintrar óreglu í framkvæmd þeirra. Yfirkjörstjórnin hefur ákveðið að kosið verði aftur 23. júní. Ákvörðuninni var mótmælt á götum Istanbúl í gær, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Heiko Mass, utanríkisráðherra Þýskalands, segir ákvörðun kjörstjórnarinnar „óskiljanlega“. Guy Verhofstadt, belgískur Evrópuþingmaður, segir að Tyrkland sé „á leiðinni í átt að einræði“. Talsmaður ESB vill að kjörstjórnin skýri ákvörðunina „tafarlaust“.

Erdogan hefur sagt að nýjar kosningar séu „besta skrefið“ fyrir Tyrkland. Fulltrúi flokks hans í kjörstjórninni segir að kosningarnar hafi verið ólöglegar vegna þess að sumir starfsmenn kjörstjórnar hafi ekki verið opinberir starfsmenn og að undirskriftir hafi vantað á einhver talningarblöð.

Onursal Adiguzel, varaformaður CHP-flokksins sem vann kosningarnar, segir að ákvörðun kjörstjórnarinnar sýni að það sé „ólöglegt að vinna gegn AK-flokkinum“. Hún væri „hreint einræði“.


Tengdar fréttir

Erdogan vill endurtalningu í Istanbúl

Forseti Tyrklands, Receep Tayyip Erdogan og flokkur hans AK, hefur óskað eftir því að atkvæði sem greidd voru í sveitastjórnarkosningunum í Istanbúl fyrir viku síðan verði talin að nýju.

Krefjast nýrra kosninga eftir valdatap

Raceep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, og flokkur hans AK, mun krefjast þess að kosið verði að nýju í Istanbúl sagði fulltrúi flokksins eftir að krafa hans um endurtalningu atkvæða í borginni var hafnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×