Íslenski boltinn

Meistararnir sóttu þrjú stig á Selfoss og Stjarnan afgreiddi HK/Víking

Anton Ingi Leifsson skrifar
Berglind skoraði eitt mark í kvöld.
Berglind skoraði eitt mark í kvöld. vísir/vilhelm
Breiðablik vann 4-1 sigur á Selfoss í Pepsi Max-deild kvenna er liðin mættust í annarri umferðinni í kvöld. Stjarnan er einnig með sex stig eftir 1-0 sigur á HK/Víking.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir kom Breiðablik yfir á áttundu mínútu og Alexandra Jóhannsdóttir tvöfaldaði forystuna á 27. mínútu.

Darian Powell minnkaði muninn fyrir heimastúlkur sjö mínútum síðar en skömmu fyrir hlé kom Hildur Antonsdóttir Blikum aftur í tveggja marka forystu.

Eina mark síðari hálfleiks kom úr vítaspyrnu átta mínútum fyrir leikslok en þá skoraði Agla María Albertsdóttir.

Íslandsmeistarar Blika eru með sex stig en nýliðar Selfyssinga eru enn án stiga eftir fyrstu tvær umferðirnar.

Jana Sól Valdimarsdóttir tryggði Stjörnunni sigur gegn HK/Víkingi stundarfjórðungi fyrir leikslok og urðu lokatölur 1-0. Stjarnan með sex stig en HK/Víkingur þrjú.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×