Erlent

Japanskeisari afsalar sér völdum

Kjartan Kjartansson skrifar
Akihito keisari í keisarahöllinni í Tókýó í morgun. Þegar hann lætur af völdum á miðnætti lýkur Heisei-tímabilinu í Japan og við tekur Reiwa-tímabilið.
Akihito keisari í keisarahöllinni í Tókýó í morgun. Þegar hann lætur af völdum á miðnætti lýkur Heisei-tímabilinu í Japan og við tekur Reiwa-tímabilið. Vísir/EPA

Akihito, keisari Japans, verður fyrsti keisari landsins til að afsala sér völdum í meira en tvö hundruð ár í dag. Hann telur sig ekki lengur færan um að sinna embættisskyldum sínum vegna aldurs og hrakandi heilsu.

Embætti keisara er táknrænt og því fylgja engin völd. Naruhito krónprins tekur við af föður sínum á morgun, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Formleg athöfn þar sem Akihito lætur af embætti fer fram í keisarahöllinni klukkan fimm síðdegis að staðartíma, klukkan átta að morgni að íslenskum tíma.

Tæknilega verður Akihito þó keisari til miðnættis. Hann er fyrsti keisarinn til að láta viljandi af völdum frá árinu 1817.

Akihito er 85 ára gamall en hann tók við embætti keisara árið 1989. Skoðanakannanir benda til þess að Japanar skilji ákvörðun hans um að stíga til hliðar.

Naruhito, verðandi keisari, er 59 ára gamall og varð krónprins þegar hann var 28 ára gamall. Hann er menntaður frá Oxford-háskóla á Englandi og er giftur Masako Owada prinsessu. Saman eiga þau dótturina Aiko prinsessu sem er átján ára gömul. Samkvæmt núgildandi lögum gæti hún ekki erft embætti föður síns.

Næstur í valdaröðinni er Fumihito, bróðir Naruhito, og Hisahito, tólf ára gamall sonur hans.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.