Innlent

Talið að kviknað hafi í út frá raftæki í Dalshrauni

Lovísa Arnardóttir skrifar
Frá vettvangi.
Frá vettvangi. Fréttablaðið/Ernir
Allt bendir til þess að eldurinn í Dals­hrauni hafi kviknað út frá raf­tæki sem var á efri hæðinni. Mann­virkja­stofnun á þó eftir að stað­festa niður­stöður tækni­deildar lög­reglunnar á elds­upp­tökum.

„Það á enn eftir að gefa út loka­skýrslu, í sam­vinnu við Mann­virkja­stofnun, um þessa niður­stöðu, en það bendir allt til þess að það hafi kviknað í út frá raf­tæki inni í einu her­berginu,“ segir Skúli Jóns­son, stöðvar­stjóri hjá lög­reglunni í Hafnar­firði, í sam­tali við Frétta­blaðið í.

Alls eru í­búar hússins 50 og var þeim að sögn Skúla út­vegað hús­næði, en ein­hverjir gátu þó sjálfir fundið sér sama­stað. Rauði krossinn að­stoðaði við að út­vega þeim sama­stað sem ekki gátu farið annað.

Hann segir að vett­vangurinn hafi verið af­hentur trygginga­fé­lagi síð­degis í gær eftir að tækni­deild lög­reglunnar lauk rann­sókn sinni um klukkan 14. Engar grun­semdir eru um að eitt­hvað sak­næmt hafi átt sér stað.

Lík­lega mun það taka nokkrar vikur að lag­færa húsið en tjónið er talið veru­legt. Þá var einnig mikið tjón í Húsasmiðjunni sem staðsett er fyrir neðan þar sem bruninn kom upp, en mikið vatn lak á milli hæða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×