Erlent

„Kannski hefði ég átt að bíða og skýla þeim með líkama mínum“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Daniel og Amelie Linsay létust í hryðjuverkaárásinni í Srí Lanka á páskadag.
Daniel og Amelie Linsay létust í hryðjuverkaárásinni í Srí Lanka á páskadag. Mynd/Linsay-fjölskyldan

Faðir tveggja fórnarlamba hryðjuverkaárásanna í Srí Lanka segist velta því fyrir sér í sífellu hvort hann hafi getað gert eitthvað öðruvísi til þess að vernda börnin sín tvö sekúndurnar örlagaríku sem sprengjurnar sprungu í kringum þau.

Í viðtali við CNN lýsir Matt Linsey tilfinningum sem bærast í brjósti hans eftir að hann slapp naumlega undan árásinni sem gerð var á Shangri-La hótelið í Colombo á Srí Lanka á páskadag. Börn hans tvö sem voru á ferðalagi með honum voru ekki svo heppin.

„Það sprakk sprengja og þau hlupu bæði í áttina til mín,“ sagði Matt Linsey í samtali við CNN. „Ég viss að það væri önnur sprengja vegna þess að það er það alltaf í svona árásum.“

Börnin hans tvö, Daniel og Amelie Linsey, 21 og 19 ára gömul, reyndu að flýja ásamt föður sínum en þegar þau voru að nálgast lyftu á hótelinu sprakk sprengja númer tvö. Daniel og Amelie urðu fyrir henni.

„Kannski hefði ég átt að bíða og skýla þeim með líkama mínum,“ sagði hinn 61 árs gamli Matt í viðtalinu tilfinningaríka en áður en árásin hófst höfðu þau verið að fá sér morgunmat á hótelinu.Í viðtalinu lýsir Matt því hvernig hann hafi hlaupið í átt að Daniel og Amelie eftir sprenginguna.

„Þau voru bæði meðvitundarlaus en dóttir mín virtist hreyfa sig. Kona bauðst til þess að koma dóttur minni í sjúkrabíl en ég þurfti hjálp til að koma syni mínum niður,“ sagði Matt.

Ástin er svarið

Matt ályktaði sem svo að Amelie væri minna slösuð og því var hann við hlið Daniel í sjúkrabílnum þar sem hann og bráðaliðar reyndu að endurlífga son hans, án árangurs. Við komuna á sjúkrahúsið hófst leitin að Amelie. Hún fannst undir ábreiðu á sjúkrahúsinu, látin.

Spurður að því hvort hann sé ekki reiður yfir því að hafa misst tvö af börnum sínum í árás sem þessari svarar hann að ákveðið lag komi upp í huga hans.

„Eitt af uppáhaldslögum okkar dóttur minnar var lag sem heitir Love is the answer. Þegar ég missti föður minn varð þetta lagið okkar, hún var bara sex ára. Jú, maður vill að ríkisstjórnin geri það sem þeir geti til að stoppa þetta fólk,“ sagði Matt sem var með skilaboð til þeirra sem frömdu hryðjuverkin.

„Ástin er svarið og það að hjálpa fólki.“


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.