Erlent

Segja öfgasamtök með alþjóðlega tengingu bera ábyrgð á hryðjuverkunum

Birgir Olgeirsson skrifar
Að minnsta kosti 290 létust í þessum árásum á kirkjur og hótel og eru fimm hundruð særðir.
Að minnsta kosti 290 létust í þessum árásum á kirkjur og hótel og eru fimm hundruð særðir. Vísir/Getty
Yfirvöld í Srí Lanka segja þá sem stóðu að hryðjuverkunum á páskadag hafa tengingu við alþjóðleg samtök. Ríkisstjórnin þar í landi hefur beint spjótum sínum að fámennum hópi öfgaíslamista þar í landi, National Thowheed Jamat, en enginn hefur lýst yfir ábyrgð vegna sprengjuárásanna.

Að minnsta kosti 290 létust í þessum árásum á kirkjur og hótel og eru fimm hundruð særðir.

Lögreglan hefur handtekið 24 í tengslum við rannsókn á þessu ódæði en sprenging átti sér stað nærri kirkju í höfuðborginni Colombo í dag en engar nánari fregnir hafa fengist að svo stöddu.

„Við teljum ekki að þessar árásir hafi verið framkvæmdar af hópi fólks sem einskorðast við þetta land. Hópurinn hefur alþjóðlega tengingu en án hennar hefðu þessar árásir ekki verið mögulegar,“ hefur fréttastofa breska ríkisútvarpsins BBC eftir talsmanni ríkisstjórnarinnar, Rajitha Senaratne.

Er forseti landsins, Maithripala Sirisena, sagður hafa óskað eftir aðstoð erlendis frá við að finna þessa alþjóðlegu tengingu við hópinn.

„Okkar upplýsingar gefa til kynna að erlend hryðjuverkasamtök séu að baki þessum innfæddu hryðjuverkamönnum. Þess vegna óskar forsetinn eftir aðstoð annarra þjóða,“ segir í tilkynningu frá embætti hans.

National Thowheed Jamath á sér ekki sögu um stórar árásir en rataði þó í fréttirnar í fyrra fyrir skemmdarverk á Búddha-líkneskjum. 

Fregnir hafa borist af því að yfirvöld hafi haft upplýsingar um að verið væri að skipuleggja árásir þar í landi en ekkert gert í því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×