Erlent

Hótar Kanada stríði vegna rusls

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Filippseyingar hafa lengi barist fyrir því að ruslinu verði skilað.
Filippseyingar hafa lengi barist fyrir því að ruslinu verði skilað. Vísir/Getty
Rodrigo Duterte, hinn umdeildi forseti Filippseyja, hefur hótað því að lýsa yfir stríði gegn Kanada sæki yfirvöld þar í landi ekki rusl sem kanadískt fyrirtæki sendi til Filippseyja fyrir nokkrum árum. CNN greinir frá.

Ónefnt kanadískt einkafyrirtæki sendi 103 gáma með um 2.500 tonnum af rusli til Manilla, höfuðborg Filippseyja, á árunum 2013 og 2014. Ruslið var merkt sem plast sem átti að fara í endurvinnslu en við skoðun kom í ljós að ruslið var ekki hæft til endurvinnslu.

Síðar kom í ljós að kanadíska fyrirtækið hafði ekki tilskilin leyfi til þess að flytja ruslið til Filippseyja. Suma gámana má enn finna við höfnina í Manilla. Yfirvöld í Filippseyjum hafa árum saman kallað eftir því að yfirvöld í Kanada sæki ruslið sitt aftur, án árangurs. Og nú virðist Duterte hafa fengið nóg.

„Ég sendi þeim viðvörun, kannski í næstu viku, um að þeim sé hollast að sækja ruslið sitt aftir. Við lýsum yfir stríði. Við getum tekið þá hvort sem er,“ sagði Duterte.

Justin Trudeau hefur áður sagt að hann sé viljugur til þess að finna lausn á málinu og spurning er hvernig hann bregst við hótunum Duterte. Sé eitthvað að marka yfirlýsingar Duterte gæti Trudeau og hann mögulega hist og rætt málin á næstunni, því Duterte hefur hótað að skila ruslinu sjálfur aftur til Kanada.

„Ég skil ekki af hverju við erum gerð að einhverjum ruslahaug. Ruslið er á heimleið.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×