Erlent

Hæddist að „Sybbna-Jóa“ og grínast með gáfnafar frambjóðandans

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Bandaríkjaforseti hæddist að Joe Biden sem í morgun tilkynnti um framboð sitt.
Bandaríkjaforseti hæddist að Joe Biden sem í morgun tilkynnti um framboð sitt. Vísir/getty
„Velkominn til leiks, Sybbni-Jói. Ég vona bara að þú sért gæddur þeim gáfum, sem lengi hefur verið efast um, sem þurfa til að heyja árangursríka baráttu í forvalinu.“

Svona hljóma upphafsorð Donalds Trump Bandaríkjaforseta í tísti sem hann birti í dag skömmu eftir að Joe Biden, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, tilkynnti um framboð sitt til forseta Bandaríkjanna.

Sjá nánar: Býður sig fram til forseta og segir grunngildi þjóðarinnar í húfi

„Þetta verður andstyggilegt – þú munt þurfa að kljást við fólk sem í raun og sanni hefur sjúkar og vitstola hugmyndir. En ef þú hefur þetta af og ferð með sigur af hólmi þá sé ég þig við rásmarkið.“

Biden tilkynnti um framboð sitt í myndbandi sem hann birti í morgun. Þar færði hann rök fyrir því að sjálf grunngildi Bandaríkjanna væru í húfi. Trump hefði teflt í tvísýnu stöðu Bandaríkjanna í alþjóðasamfélaginu. Allt sem áður hefði einkennt Bandaríkin væri í húfi í forsetakosningunum árið 2020.

„Ég trúi því að þegar fram líða stundir og við lítum um öxl verður forsetatíð Donalds Trump og allt sem hann stendur fyrir álitið viðurstyggilegt augnablik í sögunni en ef við gefum Trump átta ár í Hvíta húsinu þá mun honum takast að gjörbreyta karakter þjóðarinnar til framtíðar; breyta því hver við erum. Ég get ekki setið hjá og leyft því að gerast,“ sagði Biden í myndbandinu.

Þegar hafa 19 demókratar tilkynnt um framboð sitt. Biden, Kamala Harris og Bernie Sanders eru talin afar sigurstrangleg en samkvæmt könnunum trónar Biden á toppnum.

Í síðustu viku viðurkenndi Trump að Biden væri líklegur til að etja kappi við sig um forsetastólinn.

„Ég held að það verði annað hvort klikkaði Bernie Sanders eða Sybbni-Jói sem munu berjast um útefningu flokksins til að keppa við mögulega besta efnahagsástand í sögu lansdins (og marga aðra frábæra hluti!). Ég hlakka til að mæta hverjum þeim sem verður fyrir valinu. Megi Guð geyma þá“.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×