Erlent

Hafa ekki hugmynd um hvernig Kim kom höndum yfir eðalvagnana

Samúel Karl Ólason skrifar
Um er að ræða tvö eðalvagna af gerðunum Mercedes Maybach S500 Pullman Guard og Mercedes Maybach S62.
Um er að ræða tvö eðalvagna af gerðunum Mercedes Maybach S500 Pullman Guard og Mercedes Maybach S62. AP/Alexander Khitrov

Forsvarsmenn þýska bílaframleiðandans Daimler hafa ekki hugmynd um hvernig Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, kom höndum yfir brynvarðan eðalvagna fyrirtækisins. Kim sást í slíkum bíl í Rússlandi, þar sem hann er nú staddur og fundar með Vladimir Pútín, forseta Rússlands, og sást hann einnig í slíkum bíl á fundum hans með Donald Trump, forseta Bandaríkjanna.

Um er að ræða tvo eðalvagna af gerðunum Mercedes Maybach S500 Pullman Guard og Mercedes Maybach S62.

Daimler segist ekki hafa átt í nokkrum viðskiptum við Norður-Kóreu enda fer sala lúxusvara eins og þessara bíla gegn viðskiptaþvingunum og refsiaðgerðum Sameinuðu þjóðanna gagnvart Norður-Kóreu.

Í svari við fyrirspurn AP fréttaveitunnar segir talskona Daimler að fyrirtækið hafi ekki átt í viðskiptum við Norður-Kóreu í meira en fimmtán ár. Fyrirtækið hafi þó enga stjórn á því hvort aðrir aðilar kaupi bíla ef þeim og selji til Norður-Kóreu.

Fréttaveitan segir það að Kim hafi þrátt fyrir viðskiptaþvinganir getað keypt sér eðalvagna, til marks um það hve götóttar refsiaðgerðirnar gegn Norður-Kóreu séu.

Sameinuðu þjóðirnar, Bandaríkin og Evrópusambandið hafa hert refsiaðgerðir gegn Norður-Kóreu til muna á undanförnum árum með því markmiði að fá einræðisríkið til að láta af kjarnorkuvopnaáætlun sinni og afhenda þau vopn sem þegar er búið að framleiða til eyðingar.

Norður-Kóreumenn hafa farið fram á að létt verði á þessum aðgerðum, áður en þeir taka skref í átt að einhvers konar afvopnun. Það hafa yfirvöld Bandaríkjanna og aðrir ekki viljað.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.