Erlent

Annar manndrápsstormur skellur á Mósambík

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Gríðarlegt tjón varð er Idai skall á Mósambík nú í mars.
Gríðarlegt tjón varð er Idai skall á Mósambík nú í mars. Nordicphotos/AFP
Að minnsta kosti einn er látinn eftir að hitabeltislægðin Kenneth gekk á land í Mósambík á fimmtudag. Frá þessu greindu stjórnvöld í Afríkuríkinu í gær.

Þetta er annar mannskæði stormurinn sem hrellir Mósambík á einungis sex vikum en rúmlega þúsund fórust þegar Idai reið yfir Mósambík og nágrannalönd í síðasta mánuði.

Samkvæmt Sameinuðu þjóðunum hefur rúmlega þrjátíu þúsund manns verið gert að yfirgefa heimili sín vegna Kenneths. Talið er að sjötíu þúsund séu í bráðri hættu vegna stormsins.

Meðalvindhraði Kenneths var 77,8 metrar á sekúndu þegar stormurinn gekk á land. Hann olli því gríðarlegu tjóni í norðurhluta ríkisins. Hús hrundu, tré rifnuðu upp með rótum og víða varð rafmagnslaust. Sjávarflóð vegna Kenneths hafa einnig valdið töluverðu tjóni.

Mark Lowcock, aðstoðarframkvæmdastjóri Sameinuðu Þjóðanna á sviði mannréttindamála, sagði að þörf væri á öðru stórfelldu mannúðarátaki í Mósambík vegna stormsins.

„Þetta er í fyrsta skipti sem tvær hitabeltislægðir ganga á land í Mósambík með svo stuttu millibili,“ sagði hann.




Tengdar fréttir

Annar fellibylur hrellir Mósambík

Fellibylurinn Kenneth hefur gengið á land í Mósambík, sem enn er í sárum eftir að öflugur hvirfilbylur reið yfir landið í mars síðastliðnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×