Erlent

Verðandi forseti Úkraínu svarar boði Pútín um vegabréf

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Zelenskí er pólitískur nýgræðingur sem var fyrst og fremst þekktur sem gamanleikari.
Zelenskí er pólitískur nýgræðingur sem var fyrst og fremst þekktur sem gamanleikari. Vísir/EPA
Volodymyr Zelenskí, verðandi forseti Úkraínu, segist ætla að bjóða öllum þeim sem þjást undir hæl spilltra gerræðisríkja, fyrst og fremst rússnesku þjóðinni, ríkisborgararétt í Úkraínu. Boðið er svar Zelenskí var tilskipun sem Vladímír Pútín Rússlandsforseti gaf út í síðustu viku um rússnesk vegabréf fyrir úkraínska aðskilnaðarsinna.

Ríkisstjórn Pútín hefur stutt uppreisnarmenn í Austur-Úkraínu eftir að Rússar innlimuðu Krímskaga árið 2014. Í síðustu viku gaf hann út tilskipun um að Úkraínumönnum þar stæði til boða að fá forgangsmeðferð um rússnesk vegabréf. Sagðist hann jafnframt íhuga að bjóða öllum Úkraínumönnum það.

Zelenskí, sem sigraði í forsteakosningum á páskadag, svaraði boði Pútín í færslu á Facebook. Þar sagðist hann efast um að margir landar hans ættu eftir að þiggja boð Rússlandsforseta enda væru Úkraínumenn frjáls þjóð í frjálsu landi, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Bauð hann á móti öllum þeim sem búa í gerræðislegum ríkjum ríkisborgararétt í Úkraínu, aðallega þó „rússnesku þjóðinni sem þjáist mest af öllum“.

Skaut verðandi forsetinn föstum skotum að Rússlandi Pútíns. Skrifaði hann að rússneskt vegabréf tryggði mönnum „rétt til að vera handteknir fyrir friðsamleg mótmæli“ og „rétt til að hafa ekki frjálsar kosningar þar sem keppni er til staðar“. Krafðist hann þess að Rússar létu af hernámi sínu í austanverðu landinu og á Krímskaga.


Tengdar fréttir

Forsetar Úkraínu foxillir út í Pútín

Vladímír Pútín auðveldar Úkraínumönnum á svæði uppreisnarmanna í Donbass að fá rússnesk vegabréf. Verðandi og fráfarandi forsetar Úkraínu gagnrýna ákvörðunina harðlega og krefjast frekari þvingana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×