Erlent

Forsetar Úkraínu foxillir út í Pútín

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Rússlandsforseti sagðist ekki ætla sér að klekkja á Selenskíj.
Rússlandsforseti sagðist ekki ætla sér að klekkja á Selenskíj. Nordicphotos/AFP

Hveitibrauðsdagar Volod­íjmíjrs Selenskíj eftir að hann bar sigur úr býtum í forsetakosningunum í Úkraínu á sunnudag voru ekki margir.

Vladímír Pútín Rússaforseti undirritaði í gær tilskipun um að einfalda skyldi íbúum þess svæðis í Austur-Úkraínu sem aðskilnaðarsinnar halda í Donbass að öðlast rússneskt vegabréf. Rússar hafa ítrekað verið sagðir aðstoða aðskilnaðarsinnana. Fram á það hafa rannsóknir Reuters til að mynda sýnt. Þá hafa myndir í gegnum tíðina birst á samfélagsmiðlum þar sem rússneskir hermenn virðast staddir í Úkraínu.

Pútín sagði tilskipun sína ekki undirritaða með það í huga að valda verðandi leiðtoga Úkraínu vandræðum.

„Frekar til þess að leysa úr þeim vanda að fólk í Donetsk og Lúhansk fær ekki að njóta mannréttinda sinna.“

Petro Porosjenko, fráfarandi forseti, og Selenskíj fordæmdu báðir ákvörðun rússneskra stjórnvalda. Porosjenko sagði að með þessu væri brotið gegn alþjóðalögum. „Rússar eru að skemma fyrir friðarumleitunum í Donbass,“ sagði Porosjenko.

Forsetinn fráfarandi bætti því við að Rússar væru að reyna að réttlæta veru rússneska hersins í Austur-Úkraínu. Hann fór einnig fram á að viðskiptaþvinganir gegn Rússum yrðu hertar vegna málsins.

Selenskíj, sem er algjör nýgræðingur á sviði stjórnmála fyrir utan að hafa leikið forseta Úkraínu í gamanþáttum, tók í sama streng.

„Við treystum á aukinn pólitískan þrýsting og þvinganir gegn Rússlandi. Rússland hefur með þessu viðurkennt að það sé hernámsríki,“ sagði í yfirlýsingu frá verðandi forseta.

Pavlo Klimkin, utanríkisráðherra Úkraínu, sagði á Twitter að í ákvörðuninni fælist árásargirni gegn Úkraínu og afskipti af innanríkismálum. Hann hvatti því Úkraínumenn á svæðinu til þess að sækja ekki um rússneskt vegabréf.

Samband Rússlands og Úkraínu hefur verið með versta móti allt frá því Viktor Janúkovítsj, forseti Úkraínu, hrökklaðist frá völdum árið 2014 eftir stíf mótmæli. Janúkovítsj naut stuðnings rússneskra stjórnvalda.

Í kjölfar mótmælanna innlimuðu Rússar hinn úkraínska Krímskaga. Átök brutust út í Donbass á milli aðskilnaðarsinna sem vildu náið samband við Rússa og úkraínska herinn. Þessi átök og meint aðstoð rússneskra yfirvalda við aðskilnaðarsinna varð til þess að Vesturlönd komu á þvingunum gegn Rússlandi.

Selenskíj hefur heitið því að Úkraína muni áfram stóla á samstarf við Vesturlönd. The New York Times metur stöðuna sem svo að hann sé þó ekki jafnmikill vesturlandasinni og fyrirrennarinn.Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.