Erlent

Brexit frestað til 31. október

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá umræðunum í kvöld.
Frá umræðunum í kvöld. EPA/OLIVIER HOSLET
Brexit, úrgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu hefur verið frestað til 31. október. Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hafði farið fram á frest til 30. júní en leiðtogar ESB ræddu málið langt fram á kvöld. Leituðu þeir lausna til að verja Evrópusambandið gagnvart óreiðunni í breskum stjórnmálum þessa dagana.

Til stóð að Bretar færu úr ESB á föstudaginn og þá án samnings við sambandið varðandi áframhaldandi viðskipti, fólksflutninga og annað.

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, gekk hart fram á fundinum og krafðist hann þess að Bretar fengju ekki lengri frest en til 30. júní. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og aðrir vildu hins vegar veita May frest í allt að ár. Macron sagði blaðamönnum í dag að hann væri mótfallinn því að Bretar tækju þátt í kosningum til Evrópuþingsins sem fara fram í næsta mánuði.

31. október var valinn sem málamiðlun á milli deiluaðila.

Fyrstu viðbrögð eru þó þau að sex mánuðir sé ekki góður frestur. Sérfræðingar ytra segja mögulegt að May verði bolað úr sessi, samþykki hún frest til 31. október. Breskir blaðamenn segja slíkar þreifingar hafnar.

Andstæðingar Brexit í Bretlandi telja sömuleiðis mögulegt að nýta tímann til að boða til nýrra kosninga og jafnvel koma í veg fyrir úrgönguna. Þá er talið mögulegt að sex mánaða óvissa gæti komið niður á efnahagslífi Bretlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×