Innlent

Telur Bandaríkjamenn vilja læsa Assange inni og henda lyklunum

Jakob Bjarnar og Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifa
Kristinn Hrafnsson segir framsalskröfuna fáránlega og telur fisk liggja þar undir steini. Víst sé að ef Bandaríkjamenn ná að setja klærnar í Assange þá muni hann fá að dúsa lengi í steininum.
Kristinn Hrafnsson segir framsalskröfuna fáránlega og telur fisk liggja þar undir steini. Víst sé að ef Bandaríkjamenn ná að setja klærnar í Assange þá muni hann fá að dúsa lengi í steininum.

Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks, segir handtökuna á Julian Assange vera í boði forseta Ekvador. Hann hleypti lögregluna inn í sendiráðið þar sem Assagne var handtekinn.



Eins og Vísir hefur greint ítarlega frá var Julian Assange, stofnandi Wikileaks, handtekinn í morgun. Hann var færður á lögreglustöð þar sem honum var birt ákæra og framsalskrafa frá Bandaríkjastjórn.

Fáránleg framsalskrafa

Fréttastofa ræddi við Kristinn nú síðdegis og hann segir framsalskröfuna byggja á brotum sem Bandaríkjastjórn telur Assagne hafa framið árið 2010 með því að hafa verið í samsæri við Chelsea Manning um að birtingu upplýsinga sem Wikileaks birti það ár.



„Að sjálfsögðu er þetta fáránleg ástæða til að fá manninn til Bandaríkjanna. Brot hans er það eitt að sinna blaðamennsku eins og ég hef margoft tekið fram. Brot hans er það eitt að stuðla að birtingu gagna sem snúa að hernaðarrekstri Bandaríkjanna í Afganistan og Írak, uppljóstra um stríðsglæpi og aðra skelfingu sem við kemur þeim stríðsrekstri. Að sjálfsögðu verður barist gegn þessu framsali í réttarsölum hér á Bretlandi. Það getur tekið tíma og vænta má þess að hann muni dvelja í fangelsi meðan það er útkljáð.“

Julian Assange eftir handtökuna fyrr í morgun.Vísir/EPA

Kristinn segir augljóst að þarna sé verið að leggja fram mun minna mál en það sem hefur birst í allskyns réttargögnum í tengslum við ásakanir Bandaríkjastjórnar á hendur Assange.



„Þar sem talað hefur verið um brot á njósnalöggjöf frá 1918 sem varðar allt að dauðarefsingu. Og önnur brot sem varða áratuga fangelsi. Það er okkar mat að þarna er sé um tylliástæðu að ræða þar sem farið er fram á framsal á grundvelli minni brota. Til að auka líkur á því að hann verði framseldur. Og allar líkur á því að þegar hann kemur til Bandaríkjanna, ef af því verður, þá verður bætt á þá ákæru sem hægt er að gera. Og hann dæmdur í fangelsi í áratugi.“

Telur um pólitískar ofsóknir að ræða

Kristinn segir fyrir liggja að í vændum sé erfiður slagur. hann telur þetta mál af pólitískum toga.



„Þetta er pólitísk framsalskrafa vegna pólitískra ofsókna. Við höfum haldi fram að það hafi verið undirliggjandi í öll þessi ár og nú birtist það. Gegn því verður að sjálfsögðu barist. Þetta eru ofsóknir gegn blaðamanni. Fyrir það að sinna sínu starfi sem blaðamaður. Það sem Julian Assange, Wikileaks, ég sjálfur og aðrir sem komu að þessum málum gerðum var ekki annað en sinna starfi blaðamennskunnar. Þessi gögn voru birt í samstarfi við fjölmiðla um allan heim. New York Times, Guardian, Der Spiegel og RÚV.“



Einsýnt er, að mati Kristins, að þetta muni geta haft afar alvarlegar afleiðingar í för með sér, í því sem snýr að blaðamennsku á heimsvísu.



„Ef hægt er að láta það ganga eftir að Bandaríkjastjórn geti krafist framsals á erlendum ríkisborgurum frá 3. landi getur hver einasti blaðamaður átt slíkt yfir höfði sér. Og sett það fordæmi að önnur ríki grípi til sambærilegra aðgerða. Þarna er verið að vega að starfi blaðamanna og frjálsri fjölmiðla í heiminum.“



Kristinn telur þetta svartan dag í sögu frjálsra fjölmiðla.


Tengdar fréttir

Julian Assange handtekinn

Julian Assange, stofnandi Wikileaks, var handtekinn í morgun í sendiráði Ekvadors í London. Þar hefur hann dvalið í sjö ár. Þetta herma breskir miðlar eftir lögreglunni í Bretlandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×