Fótbolti

Hetja Ajax var ekki fædd þegar liðið komst síðast í undanúrslit

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
De Ligt fagnar marki sínu gegn Juventus í gær.
De Ligt fagnar marki sínu gegn Juventus í gær. vísir/getty

Matthjis De Ligt, sem skoraði sigurmark Ajax gegn Juventus í gær, var ekki fæddur þegar Ajax komst síðast í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu.

Ajax tryggði sér sæti í undanúrslitum Meistaradeildarinnar með fræknum útisigri, 1-2, á Juventus í gær. De Ligt skoraði sigurmarkið um miðbik seinni hálfleiks. Hann skallaði þá hornspyrnu Lasse Schöne í netið.

Þetta er í fyrsta sinn sem Ajax kemst í undanúrslit Meistaradeildarinnar frá 1997. Þá voru enn tvö ár þar til De Ligt fæddist. Hann kom í heiminn 12. ágúst 1999 og er því aðeins 19 ára. Þrátt fyrir það er hann fyrirliði Ajax og búinn að leika 15 A-landsleiki fyrir Holland.

Hinn markaskorari Ajax í leiknum gegn Juventus, Donny van de Beek, fæddist á milli leikja Ajax gegn Juventus í undanúrslitum Meistaradeildarinnar í apríl 1997. Juventus vann einvígið, 6-2 samanlagt.

Ajax varð Evrópumeistari 1995 og tapaði úrslitaleiknum fyrir Juventus ári síðar. Liðið komst í undanúrslit 1997 en þá var farið að kvarnast úr Evrópumeistaraliðinu og leikmenn á borð við Edgar Davids, Patrick Kluivert og Clarence Seedorf horfnir á braut. Eftir tímabilið 1996-97 hætti Louis van Gaal með Ajax og tók við Barcelona.

Fastlega er búist við því að stærstu lið Evrópu tíni helstu skrautfjaðrirnar af Ajax í sumar. Frenkie De Jong er þegar búinn að semja við Barcelona og allar líkur eru á því að De Ligt sé einnig á förum.

Í undanúrslitum Meistaradeildarinnar mætir Ajax annað hvort Manchester City eða Tottenham.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.