Erlent

Kveikti í blokk og stakk nágranna sína sem hlupu út

Gunnar Reynir Valþórsson og Samúel Karl Ólason skrifa
Maðurinn, sem ber eftirnafnið Ahn,var yfirbugaður af lögreglu og sagðist hafa framið morðin í bræðiskasti.
Maðurinn, sem ber eftirnafnið Ahn,var yfirbugaður af lögreglu og sagðist hafa framið morðin í bræðiskasti. EPA/YONHAP
Maður í Suður Kóreu kveikti í gærkvöldi í íbúð sinni í fjölbýlishúsi í borginni Jinju og sat síðan fyrir nágrönnum sínum þegar þeir hlupu út úr brennandi húsinu og stakk þá með hníf. Fimm eru látnir og þrettán særðir, þar af þrír alvarlega. Yngsta fórnarlamb mannsins var tólf ára stúlka en morðinginn er fjörutíu og tveggja ára.

Maðurinn, sem ber eftirnafnið Ahn, myrti einnig mann á áttræðisaldri, tvær konur á sjötugsaldri og eina konu á fertugsaldri. Átta af hinum slösuðu fengu reykeitrun. Það tók þó skamman tíma að slökkva eldinn þegar slökkviliðsmenn bar að garði.

Ahn var yfirbugaður af lögreglu og sagðist hafa framið ódæðið í reiðikasti yfir því að hafa ekki fengið útborgað. Samkvæmt Yonhap fréttaveitunni segja yfirvöld að maðurinn hafi aldrei lagt fram kvörtun vegna vangoldinna launa og er saga hans dregin í efa. Þá er maðurinn aldrei sagður hafa verið í fullri vinnu.



Hann hefur ekki viljað tjá sig við lögreglu eftir að hann var fluttur á lögreglustöð. Þá segir lögreglan að maðurinn glími við geðsjúkdóm.

Einn nágranni hans, sem dó í árásinni, hafði kvartað yfir því að hann hefði verið að elta sig og hann hafði einnig ráðist á tvo nágranna sína í janúar. Einn nágranni Ahn sagði Yonhap að íbúar byggingarinnar hefðu kvartað undan honum til lögreglu en lögregluþjónar hefðu ekki aðhafst vegna þeirra kvartana.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×