Menning

Notre Dame minnisvarði um menningarlíf Parísar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Goddur ræddi Notre Dame og brunann í gærkvöldi í Morgunútvarpinu í morgun.
Goddur ræddi Notre Dame og brunann í gærkvöldi í Morgunútvarpinu í morgun. fréttablaðið/anton brink

Guðmundur Oddur Magnússon, betur þekktur sem Goddur, prófessor við Listaháskóla Íslands, segir Notre Dame kirkjuna minnisvarða um menningarlíf Parísar. Núllpunktur Parísar sé fyrir framan kirkjuna, París verði til á þessum slóðum og því þykir Parísarbúum svo vænt um kirkjuna sem raun ber vitni.

Þetta kom fram í viðtali við Godd í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun þar sem hann ræddi brunann sem varð í Notre Dame í gærkvöldi.

„Ég trúði varla eigin augum þegar ég sá þessa mögnuðu táknmynd sem kirkjan er fuðra upp, þetta var alveg ótrúlegt að sjá þetta,“ sagði Goddur.

Yfirheyra verkamennina sem unnu að viðgerðunum

Bruninn vakti strax heimsathygli enda er Notre Dame ein þekktasta bygging í heimi og eitt helsta kennileiti Parísar.

Ljóst er að gríðarlegt tjón varð í brunanum þó að tekist hafa að bjarga mörgum merkum munum sem geymdir voru í kirkjunni.
 
Eldsupptök eru ókunn en gengið er út frá því að um slys hafi verið er að ræða.

Er talið að eldurinn tengist mögulega endurbótum á kirkjunni og hefur saksóknari í París hafið yfirheyrslur yfir verkamönnunum sem unnu að viðgerðunum en þeir voru farnir úr vinnu þegar eldurinn kom upp um klukkan sjö að staðartíma.

Vorrar frúar kirkja, eins og Notre Dame heitir á íslensku, stóð í ljósum logum í gærkvöldi. vísir/getty

Allt gert guði til dýrðar

Notre Dame er ekki hvað síst þekkt fyrir gotneska stílinn sem hún er byggð í. Kirkjan var byggð á 12. og 13. öld en Goddur sagði að Notre Dame væri þó ekki fyrsta byggingin sem byggð var í þessum stíl. Fyrsta gotneska byggingin hefði verið Saint Denis-basilíkan sem er í úthverfi Parísar.

„Það er byggt í þessum stíl. Það var maður sem hét Suger og hann er að reyna að reisa hærri byggingu guði til dýrðar. Hann er að reyna að finna aðferð til að lyfta þessu hærra upp með léttara byrði svo hægt væri að hafa hærri glugga. Hann finnur byggingalistaaðferð sem snýst um svokallaða oddboga og svifstoðir í kringum oddbogana sem geta haldið þakinu uppi á miklu léttari hátt en rómverski stíllinn sem var þarna á undan. […] Þetta er allt gert guði til dýrðar,“ sagði Goddur.

Hann sagði að Notre Dame hefði um tíma verði stærsta bygging heims og kirkjan sé einn af stóru minnisvörðum gotneska stílsins. Sá stíll hafi svo gert kirkjuna að þeim minnisvarða sem hún er í listasögunni sjálfri.

Ljóst er að tjónið sem varð í eldsvoðanum í gær er gríðarlegt. vísir/getty

Núllpunktur Parísar á torginu fyrir framan kirkjuna

Goddur sagði að auðvitað ætti að endurbyggja kirkjuna og benti á að fyrir utan alla auðjöfrana sem hafa heitið hundruð milljónum evra til viðgerða á Notre Dame þá sé kaþólska kirkjan ekki á flæðiskeri stödd fjárhagslega.

Aðspurður hvers vegna Parísarbúum þyki síðan svo vænt um Vorrar frúar kirkju, eins og Notre Dame heitir upp á íslensku, sagði Goddur aldur kirkjunnar ekki aðeins spila inn í.

„Líka þetta að þarna verður París til. Hún er núllstillt þarna. Núllpunktur Parísar er á torginu fyrir framan kirkjuna sem þýðir að þetta er minnisvarði um menningarlíf Parísar, ekki bara byggingin og gripirnir, heldur líka tónlistin, þetta er tengt tónlistarsögunni,“ sagði Goddur.

Viðtalið við hann má heyra í heild sinni hér.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.