Fyrsta deildarmark Fodens skaut City á toppinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Foden fagnar marki sínu sem gæti átt eftir að reynast afar dýrmætt í titilbaráttunni.
Foden fagnar marki sínu sem gæti átt eftir að reynast afar dýrmætt í titilbaráttunni. vísir/getty

Manchester City er komið á topp ensku úrvalsdeildarinnar eftir 1-0 sigur á Tottenham á Etihad í dag.

City er með eins stigs forskot á Liverpool sem getur endurheimt toppsætið með sigri á Cardiff City á morgun.

Eina mark leiksins kom strax á 5. mínútu. Phil Foden skallaði boltann þá í netið af stuttu færi eftir skallasendingu frá Sergio Agüero. Þetta var fyrsta deildarmark Fodens fyrir City og það reyndist heldur betur dýrmætt.

Þetta var þriðji leikur City og Tottenham á tólf dögum en Spurs sló Englandsmeistarana úr leik í Meistaradeild Evrópu á miðvikudaginn var.

City varð fyrir áfalli skömmu fyrir hálfleik þegar Kevin De Bruyne þurfti að fara af velli vegna meiðsla. Belginn hefur verið mikið meiddur í vetur en var kominn á gott skrið og hafði spilað vel í síðustu leikjum City.

Á 71. mínútu fékk Raheem Sterling dauðafæri til að koma City í 2-0 en Paolo Gazzaniga, sem stóð á milli stanganna hjá Spurs í dag, varði frá enska landsliðsmanninum.

Fjórum mínútum síðar fékk Lucas Moura besta færi gestanna en Ederson varði skot hans.

Tottenham er í 3. sæti deildarinnar með 67 stig. Arsenal getur komist upp fyrir granna sína með því að vinna Crystal Palace á morgun.

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.