Fyrsta deildarmark Fodens skaut City á toppinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Foden fagnar marki sínu sem gæti átt eftir að reynast afar dýrmætt í titilbaráttunni.
Foden fagnar marki sínu sem gæti átt eftir að reynast afar dýrmætt í titilbaráttunni. vísir/getty
Manchester City er komið á topp ensku úrvalsdeildarinnar eftir 1-0 sigur á Tottenham á Etihad í dag.

City er með eins stigs forskot á Liverpool sem getur endurheimt toppsætið með sigri á Cardiff City á morgun.

Eina mark leiksins kom strax á 5. mínútu. Phil Foden skallaði boltann þá í netið af stuttu færi eftir skallasendingu frá Sergio Agüero. Þetta var fyrsta deildarmark Fodens fyrir City og það reyndist heldur betur dýrmætt.

Þetta var þriðji leikur City og Tottenham á tólf dögum en Spurs sló Englandsmeistarana úr leik í Meistaradeild Evrópu á miðvikudaginn var.

City varð fyrir áfalli skömmu fyrir hálfleik þegar Kevin De Bruyne þurfti að fara af velli vegna meiðsla. Belginn hefur verið mikið meiddur í vetur en var kominn á gott skrið og hafði spilað vel í síðustu leikjum City.

Á 71. mínútu fékk Raheem Sterling dauðafæri til að koma City í 2-0 en Paolo Gazzaniga, sem stóð á milli stanganna hjá Spurs í dag, varði frá enska landsliðsmanninum.

Fjórum mínútum síðar fékk Lucas Moura besta færi gestanna en Ederson varði skot hans.

Tottenham er í 3. sæti deildarinnar með 67 stig. Arsenal getur komist upp fyrir granna sína með því að vinna Crystal Palace á morgun.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira