Innlent

Telja Blönduvirkjun bjóða upp á frekari uppbyggingu í héraði

Kristján Már Unnarsson skrifar
Jónas Þór Sigurgeirsson, viðhaldsstjóri Blönduvirkjunar.
Jónas Þór Sigurgeirsson, viðhaldsstjóri Blönduvirkjunar. Stöð 2/Einar Árnason.
Stækkun Blönduvirkjunar og betri flutningslínur þaðan skapa enn frekari tækifæri til uppbyggingar á Blönduósi, að mati ráðamanna í héraði. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2. 

Uppsveifla er á Blönduósi um þessar mundir vegna smíði gagnavers. Það væri þó ekki að rísa án Blönduvirkjunar. 

„Án hennar væri þetta ekki að rísa. Því að ef við horfum bara á landskerfið, raforkukerfið, þá er þetta eiginlega eini staðurinn fyrir utan suðvestursvæðið sem hægt er að afgreiða rafmagn í einhverju magni,“ segir Valgarður Hilmarsson, umsjónarmaður gagnaversverkefnis á Blönduósi. 

Valgarður Hilmarsson, umsjónarmaður gagnaversverkefnis.Stöð 2/Einar Árnason.
Þrír áratugir eru frá því raforkuframleiðsla hófst í Blönduvirkjun og viðhaldsstjórinn Jónas Þór Sigurgeirsson segir reksturinn hafa gengið ljómandi vel. Virkjunin bili varla og vélarnar skila meiri orku en gert var ráð fyrir. 

„Í hönnun var hún 720 gígavattstundir. En svo hefur verið meira vatn á ferðinni, hún hefur farið yfir 900 gígavattstundir,“ segir Jónas. 

Svo fylgir henni raforkuöryggi. 

„Já, já. Það fer varla rafmagnið af hér á svæðinu. Það var náttúrulega ýmiss svona veikleiki hér áður,“ segir viðhaldsstjóri Blönduvirkjunar.

Búið er að skipuleggja fimmtán hektara iðnaðarsvæði ofan við Blönduós.Stöð 2/Einar Árnason.
Og það er einmitt öryggi sem eigendur gagnavera sækjast eftir. 

„Það er öryggi. Þeir sækja bara í heildstætt öryggi,“ segir Valgarður. 

Sveitarstjóri Blönduóss, Valdimar O. Hermannsson, segir Blönduvirkjun vannýtta vegna skorts á flutningslínum. Í héraði sjá menn jafnframt ný tækifæri vegna áforma Landsvirkjunar um að virkja sjötíu metra fallhæð milli miðlunarlóna. 

„Nú er búið að hanna þar rennslisvirkjanir til að stækka Blönduvirkjun á næstu árum. Og það er bara verið að bíða eftir að Blöndulína 3 komist þá norður í Eyjafjörð og svo tenging aftur austur á land,“ segir Valdimar. 

Valdimar O. Hermannsson, sveitarstjóri Blönduósbæjar.Stöð 2/Einar Árnason.
„Við viljum þá um leið fá tengingu hingað niður eftir til að efla þetta iðnaðarsvæði sem er byggjast upp hér ofan við bæinn,“ segir sveitarstjóri Blönduóss. 

Og þar er búið að deiliskipuleggja fimmtán hektara svæði sem gæti rúmað til dæmis fleiri gagnaver. 

„Það er bæði markaður fyrir meira og vilji til þess að fara í meira,“ segir umsjónarmaður gagnaversverkefnis, Valgarður Hilmarsson. 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×