Innlent

Held að enginn viti að þetta sé á Blönduósi

Kristján Már Unnarsson skrifar
Kári Kárason, framkvæmdastjóri Vilko á Blönduósi.
Kári Kárason, framkvæmdastjóri Vilko á Blönduósi. Stöð 2/Einar Árnason.
Húnvetningar eru orðnir kryddkóngar Íslands en Blönduósbúar státa af því að vera með stærstu markaðshlutdeild í sölu á kryddum hérlendis. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2. Fyrirtækið Vilko var upphaflega stofnað í Kópavogi fyrir hálfri öld en flutti á Blönduós árið 1986. Flestir tengja það við súpur en vöffludeig er þó orðin stærsta söluvara fyrirtækisins.

Vilko er til húsa í gömlu mjólkurstöðinni á Blönduósi.Stöð 2/Einar Árnason.
Færri vita að fyrirtækið er jafnframt einn helsti kryddsali landsins. Kryddframleiðslu var bætt inn fyrir ellefu árum þegar Vilko hóf að selja kryddvörur undir vörumerkinu Príma.„Við erum samkvæmt nýjustu tölum með fjórtán og hálft prósent af öllum kryddmarkaði á Íslandi. Við erum langstærstir,“ segir Kári Kárason, framkvæmdastjóri Vilko.

Frá kryddframleiðslulínu Vilko á Blönduósi.Stöð 2/Einar Árnason.
Auk þess að selja krydd í verslanir fyrir neytendamarkað blandar Vilko krydd í stærri umbúðir fyrir mötuneyti og veitingastaði. „Ég held að enginn viti að þetta sé á Blönduósi,“ segir Kári og kveðst oft fá fyrirspurnir um hvort varan sé innflutt. „Jú, krydd eru innflutt. Það er lítið af kryddum sem eru ræktuð á Íslandi. En þetta er allt, sem sagt, sett í glös hérna á Blönduósi.“

Vilko blandar krydd í sérumbúðir fyrir stóreldhús.Stöð 2/Einar Árnason.
Í fyrirtækinu unnu fimm manns árið 2010 en núna eru starfsmenn orðnir fjórtán og framkvæmdastjórinn sér fram á að Vilko muni áfram dafna á Blönduósi. „Hérna eru innviðir góðir og fyrirtækin sem sinna okkur eru góð. Þannig að við ætlum okkur að dafna hérna og við ætlum að stækka. Stækkunarplanið er tilbúið. Það þarf bara að ýta á „enter“ og setja í gang,“ segir framkvæmdastjóri Vilko. Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.