Erlent

Mussolini karpar við Jim Carrey

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Allessandra Mussolini.
Allessandra Mussolini. Vísir/Getty
Kanadíski stórleikarinn Jim Carrey átti væntanlega ekki von á því að fá viðbrögð frá barnabarni ítalska einræðisherrans Benito Mussolini þegar hann birti teikningu af Mussolini í snörunni um helgina.

„Ef þið eruð að velta afleiðingum fasisma fyrir ykkur getið þið spurt Benito Mussolini og hjákonu hans, Clarettu,“ sagði í tísti Carreys með myndinni. Alessandra Mussolini, barnabarn einræðisherrans, svaraði degi síðar og sagði að Carrey væri skíthæll.

„Donald Trump forseti þarf ekki að hafa áhyggjur af pólitískum árásum aumingja Jims Carrey. Teikningar hans eru ómerkilegur pappír,“ tísti Mussolini svo og minnti einnig á atburði úr Bandaríkjasögunni á borð við þjóðarmorð á frumbyggjum.

Mussolini hefur setið á Evrópuþinginu frá árinu 2014 og sat þar áður á því ítalska fyrir Forza Italia, flokk Silvio Berlusconi. Sagði þó skilið við flokkinn á síðasta ári þegar hann ákvað að vera í andstöðu við núverandi ríkisstjórn. Hún er síður en svo óumdeild. Árið 2006 sagði transkonan og þingmaðurinn Vladi Luxuria að hún væri fasisti. Mussolini svaraði og sagðist frekar vilja vera „fasisti en kynvillingur“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×