Erlent

ESB hefur málsmeðferð vegna brota Pólverja

Kjartan Kjartansson skrifar
Evrópusambandið hefur ítrekað lýst áhyggjum af breytingum á dómskerfi Póllands sem það telur grafa undan sjálfstæði dómstóla.
Evrópusambandið hefur ítrekað lýst áhyggjum af breytingum á dómskerfi Póllands sem það telur grafa undan sjálfstæði dómstóla. Vísir/EPA
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hóf í dag nýja málsmeðferð vegna ætlaðra brota pólsku ríkisstjórnarinnar sem varða dómaramál í landinu. Hún telur að ný eftirlitsnefnd með störfum dómara stríði gegn sjálfstæði pólskra dómstóla.

Hægristjórnin í Póllandi hefur verið sökuð um að reyna að fylla hæstarétt landsins af dómurum sem er henni að skapi. Framkvæmdastjórnin áminnti Pólverjar fyrir að brjóta gegn grunngildum sambandsins um lýðræði árið 2017. Þá hefur hún opnað málsmeðferð vegna brota í tvígang áður vegna mála sem tengjast breytingum á dómskerfi Póllands, meðal annars þegar dómarar voru þvingaðir á eftirlaun.

Aðgerðir framkvæmdastjórnarinnar nú beinast að nýjum breytingum pólsku ríkisstjórnarinnar á dómskerfinu. Samkvæmt því gætu dómarar verið dregnir fyrir aganefnd og verið refsað telji stjórnvöld dóma þeirra óviðunandi. Aganefndin er aðeins skipuð dómurum sem voru tilnefndir af dómstólaráði sem stjórnarflokkurinn raðaði fulltrúum í, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Í yfirlýsingu framkvæmdastjórnarinnar segir að fyrirkomulagið tryggi ekki sjálfstæði pólskra dómara þar sem það verji þá ekki fyrir pólitískum afskiptum. Forseti pólsku aganefndarinnar hefði samkvæmt tillögum pólsku stjórnarinnar nær óskorðað vald til ákveða hvort hann tæki upp mál.

Pólska ríkisstjórnin hefur nú tvo mánuði til að bregðast við kvörtun framkvæmdastjórnarinnar.


Tengdar fréttir

Úrskurður gegn dómaralögum

Evrópudómstóllinn í Lúxem­borg hefur úrskurðað að pólsk yfirvöld verði að hætta við að lækka eftirlaunaaldur hæstaréttardómara úr 70 árum í 65 ár.

Þvinga dómara fyrr á eftirlaun

Pólsk stjórnvöld ætla að þvinga 27 af 72 hæstaréttardómurum til að fara fyrr á eftirlaun, það er 65 ára í stað 70 ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×