Erlent

Vill endurskrifa sögu valdaránsins í kennslubókum

Kjartan Kjartansson skrifar
Mótmæli voru haldin þegar 55 ár voru liðin frá valdaráninu á sunnudag. Skilti mótmælandans segir að það hafi verið einræði, pyntingar hafi átt sér stað og að jörðin sé hnöttótt.
Mótmæli voru haldin þegar 55 ár voru liðin frá valdaráninu á sunnudag. Skilti mótmælandans segir að það hafi verið einræði, pyntingar hafi átt sér stað og að jörðin sé hnöttótt. Vísir/Getty
Menntamálaráðherra Brasilíu ætlar að endurskoða kennslubækur þannig að ekki verði talað um valdarán hersins fyrir 55 árum sem slíkt heldur „fullvalda ákvörðun brasilísks samfélags“. Þannig vill að brasilískum börnum verði kennd „víðari útgáfa sögunnar“.

Jair Bolsonaro, hægriöfgamaðurinn sem var kjörinn forseti Brasilíu í fyrra, hefur margoft mært herforingjastjórnina sem réði ríkjum í landinu í 21 ár. Um helgina skipaði hann hernum að halda upp á að 55 ár væru liðin frá því að herinn rændi völdum af vinstrimanninum Joao Goulart.

Nú vill Ricardo Vélez, menntamálaráðherra, að hætt verði að tala um „valdarán“ í kennslubókum fyrir skóla og að talað verði um herforingjastjórnina sem „lýðræðislega stjórn með valdi“. Tilgangurinn sé að börn geti myndað sér „sanna og raunverulega hugmynd“ um það sem átti sér stað, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

„Brasilísk saga sýnir að það sem gerðist 31. mars árið 1964 var fullvalda ákvörðun brasilísks samfélags,“ sagði ráðherrann í viðtali.

Hátt í fimm hundruð manns voru myrtir eða látnir hverfa í tíð herforingjastjórnarinnar og þúsundir til viðbótar voru fangelsaðir og pyntaðir í landinu. Vélez telur að stjórn hersins hafi verið nauðsynleg á sínum tíma. Þegar Goulart var steypt af stóli hafi það ekki verið valdarán gegn stjórnarskránni á þeim tíma heldur „stofnanaleg tilfærsla“.

Hugmyndir ráðherrans falla þó í grýttan jarðveg hjá forseta námsgagnastofnunar Brasilíu. Hann segir að breytingar á kennsluefni verði aðeins byggðar á víðtækum rannsóknum en ekki skoðunum. Stofnunin væri alfarið á móti endurskoðun sögunnar sem byggðist á skoðunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×