Erlent

Banni við hátíðarhöldum Bolsonaro aflétt

Kjartan Kjartansson skrifar
Bolsonaro hefur margoft lýst aðdáun sinni á herforingjastjórninni sem réði ríkjum í Brasilíu í 21 ár.
Bolsonaro hefur margoft lýst aðdáun sinni á herforingjastjórninni sem réði ríkjum í Brasilíu í 21 ár. Vísir/EPA
Áfrýjunardómstóll í Brasilíu hefur snúið við banni sem lagt var við hátíðarhöldum sem Jair Bolsonaro, forseti, hafði skipað fyrir um til að minnast þess að 55 ár verða liðin frá valdaráni hersins á þessu ári. Fyrirhuguðu hátíðarhöldin hafa verið afar umdeild en hundruð manna voru drepnir í tíð herforingjastjórnarinnar.Hátíðarhöldin eiga að fara fram í dag en hægriöfgamaðurinn Bolsonaro hefur ítrekað lýst aðdáun sinni á herforingjastjórninni sem fangelsaði og pyntaði fjölda Brasilíumanna auk þeirra sem hún lét myrða eða hverfa.Dómari á lægra dómstigi lagði bann við hátíðarhöldunum með þeim rökum að þau samræmdust ekki endurreisn lýðræðis í Brasilíu á föstudag. Áfrýjunardómstóllinn sneri þeim úrskurði við og sagði að brasilískt lýðræði væri nógu sterkt til að þola „fjölhyggju hugmynda“. Sagana væri ekki endurskrifuð og sannleikurinn ekki falinn með hátíðarhöldunum, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.Mótmæli hafa verið skipulögð gegn hátíðarhöldunum í nokkrum borgum en nokkrar deildir hersins hafa þegar haldið viðburði til að minnast valdaránsins.Bolsonaro var liðsforingi í hernum áður en hann sneri sér að stjórnmálum. Hann hefur lýst valdaráni hersins 31. mars árið 1964 sem sigurhöggi gegn kommúnisma. Forsetinn er umdeildur í Brasilíu og hefur vakið reiði margra með rasískum ummælum og andúð á samkynhneigðum og konum.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.