Erlent

Háreysti í Harare eftir hárkollukaup

Andri Eysteinsson skrifar
Hér má sjá samskonar hárkollur á höfðum dómara í Hong Kong.
Hér má sjá samskonar hárkollur á höfðum dómara í Hong Kong. EPA/YM YIK
Fréttaflutningur af hárkollukaupum simbabvesku ríkisstjórnarinnar hefur fallið í grýttan jarðveg meðal stjórnarandstæðinga sem annarra í landinu. Dagblaðið Zimbabwe Independent greindi frá því í vikunni að dómsyfirvöld hafi lagt inn pöntun til fyrirtækisins Stanley Ley í London, sem sérhæfir sig í búnaði fyrir lögmenn og dómara, upp á 64 hárkollur. Heildarverðmæti hárkollanna er talið vera 118 þúsund pund eða 18.3 milljónir króna.

Eigandi Stanley Ley, Stanley Ginsburg, staðfesti í samtali við CNN að ríkisstjórnin hafi átt í viðskiptum við fyrirtækið en sagði að fjöldi hárkollanna sem tilgreindur hafði verið væri rangur.

Þrátt fyrir það er almenningur í Simbabve ósáttur við þessi fjárútlát ríkisstjórnar Emmerson Mnangagwa. Fjölmiðlamaðurinn Hopewell Chin‘ono gagnrýndi ákvörðunina á Twitter og spurði hvernig ríkisstjórnin ætli að réttlæta að geta keypt svo dýrar hárkollur á meðan að ekki eru til fjármunir til kaupa á nauðsynjum fyrir ungabörn á sjúkrahúsum landsins.

Stanley Ginsburg, eigandi Stanley Ley, sagði í samtalinu við CNN að hárkollan væri til þess fallin að auka virðingu réttarins. „Í dómsmálum er búningurinn mikilvægur, hvað er því að virða hefðir?“

Fjölmörg fyrrum ríkja breska heimsveldisins notast enn við þá bresku hefð að dómarar og lögmenn notist við síðar hvítar hárkollur í dómssal. Þó hafa ýmsir dómstólar til að mynda í Suður-Afríku, Ástralíu og jafnvel í Bretlandi sagt skilið við hárkollurnar.

Emmerson Mnangagwa forseti SimbabveGetty/Mikhail Svetlov



Fleiri fréttir

Sjá meira


×