Enski boltinn

Coutinho sýnir og sannar að Liverpool hjartað slær enn í brjósti hans

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Philippe Coutinho fagnar hér sínu síðasta marki sem leikmaður Liverpool.
Philippe Coutinho fagnar hér sínu síðasta marki sem leikmaður Liverpool. Getty/Andrew Powell
Nýtt viðtal við fyrrum Liverpool manninn Philippe Coutinho vottar um það að næsta framtíð hans er hjá Barcelona en ekki hjá ensku liði. Hann dreymir samt um að spila á Anfield í vor. Það gleður örugglega marga stuðningsmenn Liverpool að heyra hugarfar hans til Manchester United.

Philippe Coutinho segist ekki vera á förum frá Barcelona þrátt fyrir að lítið gangi upp hjá honum þessa dagana og spænskir fjölmiðlar hafi látið Brasilíumaðurinn fá myndarlegan skammt af gagnrýni.

Philippe Coutinho er því alls ekki á leiðinni í ensku úrvalsdeildina og þá allra síst til Manchester United eins og ensku slúðurmiðlarnir hafa verið að skrifa síðustu vikur og mánuði.

Stuðningsmenn Liverpool fengu örugglega flestir sting í hjartað þegar þeir lásu um að Philippe Coutinho væri mögulega á leiðinni til erkifjendanna í Manchester United. Hann var hins vegar leikmaður Liverpool í fimm ár og á svo löngum tíma á Anfield þá þróar þú með þér „ást“ eða „hatur“ á vissum félögum á Englandi.

Coutinho hefur því enn sterkar taugar til Liverpool og segir því það myndi fylgja því tvöföld ánægja fyrir hann að slá Manchester United út úr átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar.





„Ef við í Barcelona sláum Manchester United út úr Meistaradeildinni þá væri það tvöföld ánægja fyrir mig,“ sagði Philippe Coutinho við blaðamanna Daily Mirror.

Coutinho missti af Meistaradeildarævintýri Liverpool á sínu síðasta tímabili því Barcelona keypti hann frá Liverpool í janúar 2018. Liverpool fór alla leið í úrslitaleikinn án hans en Barcelona datt út í átta liða úrslitunum.

Brasilíumaðurinn var samt ekki alveg nógu ánægður með Meistaradeildardráttinn því hann vildi helst mæta Liverpool í úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Ef bæði liðin fara áfram þá mætast þau í undanúrslitunum.

„Það væri draumur að fá að spila á Anfield á ný og eflaust algjör tilfinningasprengja. Ef ég segi alveg eins og er þá var ég samt að vonast til þess að fá að mæta Liverpool í úrslitaleiknum,“ sagði Philippe Coutinho í viðtalinu við Mirror.





„Ég er ánægður með að Liverpool sé að spila vel á þessu tímabili. Klopp er frábær knattspyrnustjóri og það var því aðeins tímaspursmál hvenær liðið færi að spila svona vel,“ sagði Philippe Coutinho.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×