Enski boltinn

Ekkert falskt við hógværð Liverpool-mannsins Sadio Mané

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sadio Mané fagnar einu marka sinna á þessu tímabili.
Sadio Mané fagnar einu marka sinna á þessu tímabili. Getty/Michael Regan
Sadio Mané sækist ekki eftir athygli en frammistaða hans að undanförnu hefur kallað á miklu meiri áhuga fjölmiðla á þessum snjalla Senegala.

Sadio Mané hefur skorað níu deildarmörk eftir áramót og sjö mörk í síðustu fimm leikjum Liverpool í öllum keppnum. Að auki fékk hann vítið sem Liverpool skoraði úr sigurmarkið á móti Fulham og komst fyrir vikið aftur á toppinn.

Alls er Sadio Mané komin með 17 mörk í 29 deildarleikjum á leiktíðinni og ekkert þessara marka hefur komið úr vítaspyrnu ólíkt mönnunum sem eru í kringum hans í baráttunni um markakóngstitilinn.

Sadio Mané hefur ekki aðeins verið að skora mörk heldur hefur hann verið að skora frábær mörk þar sem hann sýnir bæði klókindi sín, leiklestur og hæfileika til að skora bæði með fótum og skalla. Mörg af þessum mikilvægu mörkum að undanförnu hafa verið algjör augnakonfekt.

Eftir því sem fjölmiðlamenn reyna að forvitnast meira um þennan snjalla fótboltamann komast þeir meira að því hversu vel gerður einstaklingur er þarna á ferðinni. Einn af þeim er Chris Bascombe á Telegraph.





Chris Bascombe segir meðal annars eina sögu af Sadio Mané þar sem hógværð hans og lítillæti kemur við sögu.

Sadio Mané var í viðtali þar sem hann var að ræða byggingu skóla í þorpinu hans í Senegal en þorpið heitir Bambali. Allt í einu sá blaðamaður að Mané hafði áhyggjur af viðtalinu.

Hann hafði ekki áhyggjur af því að blaðamaðurinn myndi gera of lítið úr þessu góðverki sínu heldur þvert á móti. „Gerðu það, ekki setja þetta í viðtalið,“ sagði Sadio Mané.

„En af hverju? Þetta sendir út mjög jákvæð skilaboð,“ svaraði blaðamaðurinn.

„Nei. nei. Ég geri þetta ekki fyrir athyglina,“ svaraði Mané og blaðamanninum tókst ekki að breyta skoðun hans.

Þetta var fyrir tólf mánuðum síðan en nú er komið í ljós að Sadio Mané gaf um 200 þúsund pund í byggingu skólans eða um 31 milljón íslenskra króna.

Þegar liðsfélagar spyrja Sadio Mané hvað hann ætlar að gera eftir að fótboltaferlinum lýkur þá fer hann að tala um að byggja sjúkrahús eða að gera önnur svipuð góðverk.

Það er því ekkert skrýtið að Telegraph slái því upp að það sé ekkert falskt við hógværð og örlæti Liverpool-mannsins Sadio Mané.

Getty/Andrew Powell



Fleiri fréttir

Sjá meira


×