Enski boltinn

Ryan Giggs svaraði Zlatan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ryan Giggs með enska meistaratitilinn sem hann vann þrettán sinnum á ferlinum.
Ryan Giggs með enska meistaratitilinn sem hann vann þrettán sinnum á ferlinum. Getty/ John Peters
Ryan Giggs er að undirbúa velska landsliðið fyrir undankeppni EM 2020 en á blaðamannafundi fyrir komandi leiki notaði hann líka tækifærið og svaraði gagnrýni Zlatan Ibrahimovic á sig og aðra í svokallaðri Ferguson-klíku.

Zlatan Ibrahimovic var á því í blaðaviðtali sem birtist í gær að menn eins og Ryan Giggs og knattspyrnusérfræðingar eins og þeir Gary Neville og Paul Scholes hafi ýtt undir gagnrýnina á Paul Pogba. Allir eigi þeir það síðan sameiginlegt að fara verið 92-klíkunni hans Ferguson.

Ástæðuna fyrir þessari gagnrýni þeirra á Pogba rekur Ibrahimovic aftur til ársins 2012 þegar Paul Pogba tók þá ákvörðun að yfirgefa Manchester United og fara til Juventus. Þá var Sir Alex Ferguson ennþá knattspyrnustjóri Manchester United.





„Nú er bara Nicky [Butt] tengdur félaginu en við spiluðum yfir tvö þúsund leiki samanlagt fyrir félagið og auðvitað höfum við því skoðun á því sem er í gangi hjá klúbbnum,“ sagði Ryan Giggs. Hann sjálfur lék 963 leiki fyrir Manchester United frá 1991 til 2014.

„Stundum er þetta jákvætt, stundum neikvætt en okkar skoðanir hafa ekki áhrif á úrslitin í leikjum United-liðsins. Við erum stuðningsmenn. Fótbolti snýst um það að hafa ólíkar skoðanir. En hann [Ibrahimovic] veit augljóslega meira um félagið en við,“ skaut Giggs á Zlatan.

Giggs, Neville, Scholes, Butt, David Beckham og Phil Neville léku samtals 3450 leiki fyrir Manchester United og á tíma þegar liðið vann ógrynni af titlum.

Zlatan Ibrahimovic lék 53 leiki fyrir Manchester United frá sumrinu 2016 þar tuil í mars 2018 þegar hann fór til bandaríska félagsins LA Galaxy.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×