Enski boltinn

Sagðist neyðast til að hætta í fótbolta eftir dóm um kynþáttaníð

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Jones (t.v.) er hætt í fótbolta
Jones (t.v.) er hætt í fótbolta vísir/getty
Fyrrum leikmaður Sheffield United segist hafa neyðst til þess að hætta í fótbolta eftir að hún fór í bann fyrir kynþáttaníð.

Sophie Jones var rekin frá Sheffield United og sett í fimm leikja bann af enska knattspyrnusambandinu eftir að hún var dæmd sek um kynþáttaníð gagnvart varnarmanni Tottenham Renee Hector.

„Ég stend fast á því að ég er ekki sek um það sem enska knattspyrnusambandið sakaði mig um,“ sagði Jones á Twitter.

„Ég á í erfiðleikum með að sætta mig við þessa ákvörðun og hvernig hægt er að komast að þessari niðurstöðu.“

„Mér finnst ég ekki geta haldið áfram í fótbolta og spilað innnan sambands sem ég ber ekkert traust til.“



Enska knattspyrnusambandið svaraði orðum Jones með því að taka fram að dómurinn hafi verið kveðinn af óháðri nefnd og greinagerð hans verði gerð opinber fljótlega.

Hector svaraði Jones einnig með því að birta sína eigin færslu á Twitter þar sem hún sagði „ég fagna þessum dómi. Enginn ætti að verða fyrir kynþáttaníði innan eða utan vallar og mér fannst ég skyldug til þess að segja frá því.“

Hector hafði upphaflega greint frá því á samfélagsmiðlum að leikmaður í liði andstæðingsins hafi beint apahljóðum að henni í leik Tottenham og Sheffield United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×