Enski boltinn

Algjör martröð fyrir Rooney ef Liverpool verður enskur meistari

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney fagnar í leik á móti Liverpool.
Wayne Rooney fagnar í leik á móti Liverpool. Getty/Alex Livesey
Það er einn knattspyrnumaður utan herbúða Manchester City og Liverpool sem getur seint talist vera hlutlaus í baráttu félaganna um enska meistaratitilinn á þessu tímabili.

Já við erum að tala um einn Wayne Rooney sem eyddi stærstum hluta síns fótboltaferils að spila með erkifjendum og nágrönnum Liverpool eða liðum Manchester United og Everton. Það þarf því kannski ekki að koma neinum á óvart að hann haldi með Manchester City eða hvað?

Þrettán ár í Manchester United ættu nú að búa til talsverðan kala til City en það dugar þó ekki til að eyða út „hatri“ hans á Liverpool.

Rooney gengur lengra en að halda bara með liði Manchester City því hann liggur eiginlega á bæn um að Liverpool nái ekki að verða Englandsmeistari í fyrsta sinn í 29 ára.





Wayne Rooney ræddi baráttu Manchester City og Liverpool í útvarpsþætti talkSPORT og útskýrði af hverju hann heldur svona með Manchester City.

„Það er frábær ástæða fyrir að búa erlendis þegar þessi tvö félög eru að berjast um enska titilinn,“ sagði Wayne Rooney í léttum tón í útvarpsviðtalinu.

Wayne Rooney er að klára sinn feril í Bandaríkjunum þar sem hann spilar með liði D.C. United. Rooney skoraði einmitt þrennu á dögunum í leik með D.C. United í MLS-deildinni.

„Ég vona að Manchester City komist á undan Liverpool yfir marklínuna. Ég gæti ekki þolað það að sjá Liverpool vinna. Það yrði algjör martröð fyrir mig sem Everton-mann,“ sagði Rooney.

„Ég man árið 2005 þegar Liverpool vann Meistaradeildina og þeir eru enn þá að tala um þann sigur í dag. Þeir munu því örugglega tala um þennan titil í tíu eða fimmtán ár ef þeir vinna hann núna,“ sagði Rooney.

Wayne Rooney er fæddur og uppalinn stuðningsmaður Everton. Hann spilaði líka með félaginu áður en hann seldur til Manchester United þar sem hann lék í þrettán ár og vann fjölda titla. Rooney endaði síðan feril sinn í ensku úrvalsdeildinni með Everton en fór síðan til Bandaríkjanna í fyrra.

Wayne Rooney í leik á móti Liverpool á Anfield.Getty/Andrew Powell



Fleiri fréttir

Sjá meira


×