Erlent

Neyðarástand vegna mislingafaraldurs

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Bólusetningar eru ekki notalegar, en þær eru öruggar.
Bólusetningar eru ekki notalegar, en þær eru öruggar. Getty/Karl Tapales
Neyðarástand tók gildi í Rockland-sýslu í New York-ríki Bandaríkjanna í gær vegna mislingafaraldurs. Alls höfðu 153 greinst með sjúkdóminn þegar ákvörðunin var tekin á þriðjudag. Þar af eru 85 prósent átján ára eða yngri og tæp fjörutíu prósent undir þriggja ára aldri. Langflest sýktra hafa ekki fengið þær MMR-bóluefnissprautur sem þarf til að bólusetja við mislingum, rauðum hundum og hettusótt. Alls búa um 300.000 í Rockland.

„Allt sem við höfum gert frá því að faraldurinn braust út hefur verið til þess gert að hámarka bólusetningar og lágmarka útbreiðslu. Við tökum næstu skref í dag,“ sagði í tilkynningu frá Ed Day sýslumanni á þriðjudag.

„Rannsakendur okkar hafa mætt mótspyrnu frá fólkinu sem þeir reyna að vernda. Skellt er á þá og þeim sagt að hringja ekki aftur. Þeim hefur verið sagt að bólusetningar séu ekki inni í myndinni. Þess háttar svör eru bæði óásættanleg og óábyrg. Þetta stefnir öðrum í hættu og sýnir fram á algjört og sláandi ábyrgðarleysi,“ bætti Day við.

Neyðarástandið í Rockland felur í sér að fólk undir átján ára aldri, óbólusett gegn mislingum, fær ekki að vera í almannarými næstu 30 daga. Undir almannarými falla meðal annars stofnanir, bænahús, almenningssamgöngur, skólar, veitingastaðir, kvikmyndahús og verslanir. Börn sem ekki má bólusetja af heilsufarsástæðum eru undanskilin banninu.

Að sögn sýslumannsins er þetta líklega í fyrsta skipti sem ákvörðun sem þessi er tekin í Bandaríkjunum. Reynist óbólusett barn hafa brotið gegn banninu gætu foreldrarnir þurft að greiða um 50 þúsund króna sekt eða sitja í fangelsi í allt að 90 daga.

The New York Times greindi frá því að um 6.000 óbólusett börn í sýslunni fengju nú ekki að sækja skóla. Flest greind tilfelli hafa verið í samfélögum strangtrúaðra rétttrúnaðargyðinga en þar er tíðni bólusetninga mun lægri en í öðrum samfélögum sýslunnar.

John Lyon, upplýsingafulltrúi sýslumanns, sagði við CNN að markmiðið væri ekki að refsa fólki heldur að beina því í réttan farveg svo hægt væri að stöðva faraldurinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×