Íslenski boltinn

Bikarkeppnin ber aftur nafn mjólkurinnar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Frá undirskriftinni í dag. Frá vinstri eru Sonný Lára Þráinsdóttir, fyrirliði ríkjandi bikarmeistara Breiðabliks, Ari Edwald, forstjóri MS, Guðni Bergsson, formaður KSÍ, Stefán Sigurðsson, forstjóri Sýnar og Baldur Sigurðsson, fyrirliði bikarmeistara Stjörnunnar.
Frá undirskriftinni í dag. Frá vinstri eru Sonný Lára Þráinsdóttir, fyrirliði ríkjandi bikarmeistara Breiðabliks, Ari Edwald, forstjóri MS, Guðni Bergsson, formaður KSÍ, Stefán Sigurðsson, forstjóri Sýnar og Baldur Sigurðsson, fyrirliði bikarmeistara Stjörnunnar. Vísir/Vilhelm
Fulltrúar Mjólkursamsölunnar og Sýnar hf. skrifuðu í dag undir nýjan eins árs samning um að bikarkeppnir karla og kvenna í heiti Mjólkurbikarinn.

Samningurinn var undirritaður í dag í höfuðstöðvum KSÍ af fulltrúum MS og Sýnar hf., sem meðal annars rekur Stöð 2 Sport og Vísi.

Bikarkeppnin hét þessu nafni frá 1986 til 1996 en Mjólkurbikarinn sneri svo aftur síðastliðið sumar við góðar undirtektir.

„Við vorum mjög ánægð með að endurvekja Mjólkurbikarinn í fyrra og fengum mjög góð viðbrögð á það. Keppnin var þar að auki mjög skemmtileg og fór vel fram,“ sagði Ari Edwald, forstjóri MS, í dag. „Við vorum spennt að taka þátt í þessu aftur.“

Ari segir að það sé mikilvægt í augum MS að lið úr öllum landshornum taki þátt í bikarkeppninni. „Svo viljum við vekja athygli á því að mjólk er einhver besti íþróttadrykkur sem hægt er að fá. En þess fyrir utan er það góð kynning að halda mjólkinni á lofti í tengslum við keppnina sem fékk mjög góða og jákvæða athygli.“

Mjólkurbikar karla hefst 10. apríl með viðureign Kára og Hamars í Akraneshöllinni en fyrstu tvær umferðirnar fara fram í apríl. Um mánaðamótin fara svo 32-liða úrslitin fram en þá koma lið úr Pepsi Max-deild karla til sögunnar.

Í kvennaflokki hefst Mjólkurbikarinn þann 3. maí með þremur leikjum. Liðin tíu úr Pepsi Max-deild kvenna hefja svo þátttöku í 16-liða úrslitum sem hefjast 31. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×