Erlent

Sjálfstýring fór í gang áður en eþíópíska flugvélin fórst

Kjartan Kjartansson skrifar
Boeing kyrrsetti allar 737 Max-vélar sínar skömmu eftir slysið í Eþíópíu fyrr í þessum mánuði.
Boeing kyrrsetti allar 737 Max-vélar sínar skömmu eftir slysið í Eþíópíu fyrr í þessum mánuði. Vísir/EPA
Rannsakendur í Eþíópíu segja að sama sjálfstýringarkerfið og er talið hafa átt þátt í hrapi flugvélar á Indónesíu hafi farið sjálfkrafa í gang rétt áður en Boeing-farþegaþota Ethiopian Airlines fórst fyrr í þessum mánuði.

Wall Street Journal segir frá bráðbirgðaniðurstöðum flugslysarannsakandenna og fullyrði að þær hafi verið afhentar bandarískum flugmálayfirvöldum í gær. Fulltrúar Boeing segja að fyrirtækið ætli ekki að tjá sig á meðan rannsókn er enn í gangi.

Hluti af sjálfstýringarbúnaði Boeing 737-Max-flugvélanna sem á að varna gegn ofrisi er sagður hafa farið sjálfkrafa í gang rétt áður en eþíópíska vélin fórst. Það er sami búnaður og er talinn hafa átt í því að sams konar vél Lion Air fórst á Indónesíu í haust. Alls fórust 346 manns í slysunum tveimur.

Í slysinu á Indónesíu er talið að hugbúnaðurinn hafi bilað. Sjálfstýringin hafi beint trjónu flugvélarinnar niður á við oftar en tuttugu sinnum áður en hún hrapaði loks í hafið. Allir farþegarnir 189 auk áhafnar fórust.

Boeing hefur sagst hafa endurhannað hugbúnaðinn þannig að vörnin gegn ofrisi fari ekki í gang fái búnaðurinn misvísandi gögn frá skynjurum á flugvélinni. Það sé þó ekki viðurkenning á að hugbúnaðurinn hafi valdið slysunum, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Boeing kyrrsetti allar 737 Max-vélar sína í kjölfar slyssins í Eþíópíu.

Greint hefur verið frá því að Boeing hafi selt mæla sem hefðu getað gefið flugmönnum vélunum upplýsingar um að eitthvað bjátaði á sem aukabúnað í vélum sínum dýrum dómum. Þeir hafi því ekki verið til staðar í indónesísku vélinni.


Tengdar fréttir

Höfðu aðeins 40 sekúndur til að afstýra stórslysi

Komið hefur í ljós við endursköpun þeirra aðstæðna í flughermi sem flugmenn Lion Air þotunnar sem hrapaði í Indónesíu á síðasta ári stóðu frammi fyrir að þeir höfðu aðeins 40 sekúndur til þess að aftengja flugkerfið sem grunur leikur á að hafi spilað stóran þátt í flugslysinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×