Erlent

Veðmál bönnuð í Kósóvó í kjölfar morða

Andri Eysteinsson skrifar
Ramush Haradinaj, forsætisráðherra Kósóvó.
Ramush Haradinaj, forsætisráðherra Kósóvó. Getty/Anadolu Agency
Þjóðþingið í Kósóvó hefur samþykkt frumvarp sem bannar öll veðmál í landinu næstu tíu árin. Frumvarpinu er ætlað að koma í veg fyrir glæpi tengda veðmálunum, en kveikjan að því voru tvö morðmál í síðustu viku. Fórnarlömbin voru í báðum tilfellum starfsfólk spilavítis. Guardian greinir frá.

Forsætisráðherra Kósóvó, Ramush Haradinaj, sagði að ætlunin væri að auka öryggi almennings í landinu. Haradinaj hafði áður sagt að öll veðmál yrðu bönnuð að ríkishappdrættinu undanskildu. Nú þegar hefur stórum hluta þeirra 470 spilavíta í landinu verið lokað.

Eigandi 14 þeirra, Ruzhdi Kosumi sagði ákvörðunina furðulega. „Bannið kemur til vegna þess að við misstum tvo starfsmenn, bannið er furðulegt. Fyrst missum við félaga okkar og nú missum við vinnuna,“ sagði Kosumi við Reuters.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×