Enski boltinn

Solskjær: Dómarinn verður ósáttur þegar hann sér þetta

Anton Ingi Leifsson skrifar
Solskjær á bekknum í dag.
Solskjær á bekknum í dag. vísir/getty
Ole Gunnar Solskjær, stjóri Manchester United, tapaði sínum fyrsta leik sem stjóri United gegn ensku liði er United tapaði 2-0 fyrir Arsenal fyrr í dag.

Solskjær segir að það hafi líklega setið aðeins í leikmönnum liðsins Meistaradeildarleikurinn gegn PSG fyrr í vikunni.

„Við byrjuðum rólega og kannski var það bakslag frá leiknum á miðvikudagskvöldið en við sköpuðum færi og þegar fyrsta markið kom þá varð þetta annar leikur,“ sagði Norðmaðurinn við Sky Sports í leikslok.

„Við sköpuðum mun fleiri færi í dag en þegar við slógum þá út úr enska bikarnum. Stundum gerist þetta; við skutum tvisvar í tréverkið og áttum fimm stóra möguleika á að skora.“

Arsenal fékk vítaspyrnu til þess að komast í 2-0 og Solskjær eyddi fáum orðum í það: „Dómarinn verður ósáttur þegar hann sér þetta því mér finnst þetta ekki vera víti.“

David de Gea gerði sig seka um mistök í fyrra marki Arsenal en þrumuskot Xhaka af tuttugu metra færi endaði í netinu. Margir hefðu viljað sjá Spánverjann gera betur en Solskjær segir að boltinn hafi ferðast undarlega.

„David er alltaf ósáttur þegar hann fær á sig mörk. Boltinn hreyfðist skringilega og þetta er eins og David fer til vinstri og svo breytir boltinn um átt. Á fyrstu fimmtán til tuttugu mínútunum vorum við hægir og settum þá ekki undir pressu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×