Enski boltinn

Liverpool og Arsenal hafa bætt sig mest frá því í fyrra

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sadio Mane fagnar öðru marka sinna í gær.
Sadio Mane fagnar öðru marka sinna í gær. Getty/Michael Regan
Liverpool og Arsenal eru bæði með mun fleiri stig í ensku úrvalsdeildinni eftir 30 leiki í ár en á sama tíma í fyrra.

Þegar stigafjöldi liðanna eftir 30 leiki 2017-18 og 2018-19 er borinn saman kemur ýmislegt í ljós.

Liverpool hefur 13 fleiri stig í ár en 2017-18 tímabilið sem er aukning upp á 21,7 prósent. Liverpool liðið er einu stigi á eftir toppliði Manchester City.





Arsenal hefur 12 fleiri stig í ár en 2017-18 tímabilið sem er aukning upp á 25.0 prósent.  Arsenal vann Manchester United um helgina og styrkti sig um leið í fjórða sæti deildarinnar.

West Ham (9 fleiri stig), Watford (7 fleiri stig) og Crystal Palace (6 fleiri stig) eru líka með mun betri árangur í ár.





Hlutfallslega er mesta aukningin hjá West Ham en hún er upp á 30.0 pðrósent. Liðið er með 39 stig í ár en var með 30 stig í fyrra. Crystal Palace hefur hækkað sig um 22,2 prósent en hækkun Watford er upp á 19,4 prósent.

Manchester City og Manchester United eru bæði með sjö færri stig en á síðasta tímabili en mesta hrunið er hjá Jóhanni Berg Guðmundssyni og félögum í Burnley sem eru með þrettán færri stig á þessu tímabili en 2017-18. Það er 30,2 prósent fækkun stiga.

Manchester City er með 8,6 prósent færri stig í ár en í fyrra. Það breytir því þó ekki að liðið er í efsta sæti deildarinnar eins og fyrir ári síðan. Yfirburðir Manchester City 2017-18 voru það miklir.

Tottenham og Everton eru aftur á móti með nákvæmlega sama stigafjölda í dag og þeir voru með á sama tíma fyrir ári síðan. 61 stig hjá Tottenham og 37 stig hjá Everton. Öll önnur lið deildarinnar hafa annaðhvort fleiri eða færri stig.

Nick Harris tók þetta saman og birti á Twitter eins og sjá má hér fyrir neðan.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×