Erlent

Bouteflika stígur til hliðar

Samúel Karl Ólason skrifar
Fjölmenn mótmæli hafa verið haldin í Algeirsborg og víðar í landinu og krefjast mótmælendur þess að Bouteflika bjóði sig ekki fram að nýju.
Fjölmenn mótmæli hafa verið haldin í Algeirsborg og víðar í landinu og krefjast mótmælendur þess að Bouteflika bjóði sig ekki fram að nýju. AP/Francois Mori
Abdelaziz Bouteflika, forseti Alsír, er hættur við að gefa aftur kost á sér. Því lýsti hann í kjölfar umfangsmikilla mótmæla þar í landi. Bouteflika, sem er 82 ára gamall og hefur verið við völd í tvo áratugi, hefur varla sést á almannafæri eftir að hann fékk heilablóðfall árið 2013. Hann er nýkominn aftur til Alsír eftir að hafa verið á sjúkrahúsi í Sviss í tvær vikur.

Fjölmenn mótmæli hafa verið haldin í Algeirsborg og víðar í landinu og krefjast mótmælendur þess að Bouteflika bjóði sig ekki fram að nýju. Hundruð þúsunda hafa tekið þátt í mótmælunum og samkvæmt Guardian hafa þó að miklu leyti hætt að snúast um að Bouteflika bjóði sig ekki fram í fimmta sinn og farið að snúast að miklu leyti gegn almennum stjórnháttum í landinu.



Rúmlega þúsund dómarar Alsír höfðu gefið það út að þeir myndu neita að koma að forsetakosningum með nokkrum hætti ef Bouteflika byði sig fram.

Í tilkynningu vísaði forsetinn þó til slæmrar heilsu sinnar og sagði það ástæðu þess að hann ætlaði ekki að bjóða sig fram á nýjan leik. Hann sagðist skilja mótmælendur og hrósaði þeim fyrir friðsöm mótmæli.

Hann sagði einnig að ríkisstjórnin myndi skapa sjálfstæða forsetanefnd sem myndi ákveða hvenær halda skyldi kosningar. Samhliða forsetakosningum á einnig að kjósa um nýja stjórnarskrá Alsír en þangað til verður starfstjórn mynduð tímabundið. Sú starfsstjórn verður leidd af Noureddine Bedoui, innanríkisráðherra.

Rúmir tveir þriðju af íbúum Alsír eru undir þrítugt að aldri. Þar er mikið atvinnuleysi og húsnæðisskortur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×