Enski boltinn

Rafael Benitez með fleiri stig en Jürgen Klopp frá 13. janúar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hér fer mjög vel á með þeim Jürgen Klopp og  Rafa Benitez.
Hér fer mjög vel á með þeim Jürgen Klopp og Rafa Benitez. Getty/Andrew Powell
Rafael Benitez hefur náð að snúa við blaðinu hjá liði Newcastle United en lið spænska knattspyrnustjórans hefur verið eitt besta lið ensku úrvalsdeildarinnar undanfarna tvo mánuði.

Newcastle liðið tapaði á móti Chelsea 12. janúar en hefur síðan komið öflugt til baka.

Aðeins tvö lið í deildinni hafa náð í fleiri stig á síðustu tveimur mánuðum eða Manchester City (21) og Manchester United (17). Newcastle hefur 16 stig eða jafnmörg stig og Arsenal.

Newcastle dettur reyndar niður í fjórða sætið á eftir Arsenal á slakari markatölu.

Newcastle er með þrjú fleiri stig en Jürgen Klopp og lærisveinar hans í Liverpool en Liverpool hefur reyndar aðeins leikið sjö leiki á þessum tíma eða einum leik færra en Newcastle.

Daniel Storey tók saman þessa stigatöflu hér fyrir neðan og birti á Twitter.



 

Eftir tapleikinn á móti Chelsea höfðu lærisveinar Rafael Benitez aðeins náð í eitt stig í fjórum leikjum og aðeins unnið einn af síðustu níu leikjum sínum. Það var farið að hitna verulega undir Spánverjanum.

Honum tókst hins vegar að koma liði sínu í gang og byrjunin var að vinna 3-0 sigur á Cardiff City 19. janúar. Liðið vann síðan Manchester City tíu dögum síðar og staðan var orðin allt önnur.

Á þessum tíma hefur Newcastle liðið farið frá því að vera í fallsæti í að komast upp í þrettánda sæti deildarinnar.

Þetta leit ekki vel út um helgina þegar liðið lenti 2-0 undir á móti Everton en frábær endurkoma í seinni hálfleik tryggði Newcastle 3-2 sigur og þrjú stig.

Fimm sigar í síðustu átta leikjum og aðeins tvö töp. Tapleikirnir komu á móti Tottenham (0-1) og West Ham (0-2) en sigurleikirnir eru á móti Cardiff, Manchester City, Huddersfield, Burnley og Everton.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×