Erlent

Börn fórust þegar skólabygging hrundi

Kjartan Kjartansson skrifar
Margmenni fylgist með björgunarfólki að störfum í rústum hússins sem hrundi.
Margmenni fylgist með björgunarfólki að störfum í rústum hússins sem hrundi. Vísir/AP
Að minnsta kosti átta börn eru sögð hafa farist þegar skólabyggingin hrundi í Lagos, höfuðborg Nígeríu í morgun. Björgunarlið leitar nú í rústunum en fjöldi fólks er talinn fastur í þeim.

Einkagrunnskóli var á þriðju hæð hússins sem hrundi í Ita-faji-hverfinu í Lagos um klukkan tíu að staðartíma í morgun, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Þúsundir manna hafa þyrpst í kringum rústirnar til að fylgjast með björgunarstörfunum. Breska ríkisútvarpið BBC greinir frá því að minnsta kosti átta börn séu látin. Frekari upplýsingar um mannskaða liggja enn ekki fyrir.

Veikar byggingarreglugerðir og lélegt byggingarefni er sagt ástæða þess að húshrun eru tíð í Nígeríu. Fleiri en hundrað manns létu lífið þegar kirkja hrundi í suðausturhluta landsins árið 2016 og þrjátíu manns til viðbótar fórust þegar fimm hæða hús hrundi í Lagos sama ár.

Uppfært 14:00 Fréttin var uppfærð þegar staðfest var að fólk hefði látist þegar byggingin hrundi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×