Enski boltinn

Fyrrum leikmaður Liverpool maðurinn á bak við knattspyrnuskóna sem breyttu öllu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Craig Johnston og Kenny Dalglish unnu tíu titla saman með Liverpool á níunda áratugnum.
Craig Johnston og Kenny Dalglish unnu tíu titla saman með Liverpool á níunda áratugnum. Getty/Mark Leech

Adidas Predator knattspyrnuskórnir eiga 25 ára afmæli í dag en líklega hafa engir knattspyrnuskór breytt jafnmiklu í fótboltaheiminum og þeir gerðu þegar þeir komu fram árið 1994.

Guardian tók saman stutt en fróðlegt myndband um Adidas Predator skóna í tilefni af 25 ára afmælinu. Það má sjá það hér fyrir neðan.

Þar kemur meðal annars fram að fyrrum leikmaður Liverpool, Craig Johnston, hafi í byrjun tíunda áratugs síðustu aldar gengið á milli íþróttavöruframleiðanda með hugmynd af nýjum knattspyrnuskóm.

Í þá daga voru fótboltaskórnir af allt öðrum toga en þeir eru í dag. Á þessum tíma voru aðeins til einfaldir svartir leður fótboltaskór. Johnston fékk nýstárlega hugmynd og fylgdi henni eftir.

Það tók margar tilraunir og fjölmargar heimsóknir til margra skóframleiðanda áður en Craig Johnston náði loksins að selja hugmyndina sína. Á endanum var það Adidas sem stökk á þetta og sér ekki mikið eftir því í dag.

Adidas Predator skórnir áttu þannig mikinn þátt í því að snúa við slæmum rekstri Adidas á tíunda áratugnum. Auglýsingaherferðin og skórnir slógu í gegn og sumir tala enn um Adidas Predator sem bestu fótboltaskóna sem hafa verið framleiddir.

Fótboltaferill Craig Johnston var sigursæll en endaði um leið mjög snögglega.  Hann vann tíu titla með Liverpool þar af enska meistaratitilinn fimm sinnum.

Craig Johnston lék með Liverpool frá 1981 til 1988 en setti sína skó upp á hillu vorið 1988 þá aðeins 28 ára gamall. Hann ákvað þá að eyða öllum sínum tíma að hugsa um veika systur sína og fórnaði fótboltanum fyrir hana.

Johnston fékk tilboð um að spila með öðrum félögum á næstu árum á eftir en gaf það út að hann gæti aldrei spilað með öðru félagi en Liverpool.

Hér fyrir neðan má sjá myndband Guardian um Craig Johnston og sögu Adidas Predator fótboltaskóna.
Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.