Enski boltinn

Beckham spilar undir stjórn Sir Alex Ferguson á Old Trafford

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Beckham og Sir Alex Ferguson.
David Beckham og Sir Alex Ferguson. Getty/ John Peters
David Beckham, fyrrum leikmaður Manchester United og fyrirliði enska landsliðsins, mun klæðast aftur Manchester United treyjunni 26. maí næstkomandi.

Beckham hefur samþykkt að taka þátt í minningarleik um afrek Manchester United frá 1998-99 tímabilinu en liðið tryggði sér þá þrennuna með sigri á Bayern München í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í Barcelona.





Í tilefni af tuttugu ára afmæli afreksins munu heldri manna lið Manchester United og Bayern München mætast á Old Trafford í Manchester 26. maí næstkomandi.

Beckham verður þarna í góðra vina hópi en með Manchester United liðinu munu líka spila menn eins og Paul Scholes, Nicky Butt og Jesper Blomqvist. Sir Alex Ferguson mun síðan stýra liðinu.





David Beckham lék 394 leiki fyrir Manchester United á sínum tíma og varð sex sinnum Englandsmeistari með félaginu áður en hann fór til Real Madrid árið 2003.

„Ég er mjög spenntur fyrir því að fá að spila aftur á Old Trafford. 1999 var risaár fyrir okkur og það verður mjög sérstakt að endurgera þennan leik. Það er mjög stórt fyrir mig að fá spila aftur með þessum strákum og að spila aftur fyrir stjórann. Ég get ekki beðið,“ sagði David Beckham.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×