Fótbolti

Klopp hefur ekki tapað tveggja leikja einvígi í Evrópu sem stjóri Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool.
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool. Getty/Chris Brunskill

Liverpool er komið í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar eftir að hafa haft betur í tveimur leikjum á móti þýska liðinu Bayern München. Knattspyrnustjórinn Jürgen Klopp hélt þar áfram sigurgöngu sinni í Evrópukeppninni.

Jürgen Klopp settist í stjórastólinn hjá Liverpool í október 2015 og síðan hefur liðið komist í úrslitaleikinn í báðum Evrópukeppnum sínum undir stjórn Þjóðverjans. Fyrst í úrslitaleik Evrópudeildarinnar vorið 2016 og svo í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í gær.

Liverpool var ekki í neinni Evrópukeppni tímabilið 2016-17 en komst árið eftir í Meistaradeildina í fyrsta sinn síðan 2014-15 tímabilið. Liverpool er nú komið í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar annað árið í röð.

Sigurinn á Bayern München í gær þýðir að Liverpool-liðið hefur unnið öll átta tveggja leikja einvígi sín í Evrópukeppni undir stjórn Jürgen Klopp.

Tvö lið hafa slegið Liverpool út í Evrópukeppni, fyrst Sevilla í úrslitaleik Evrópudeildarinnar í Basel 18. maí 2016 og svo Real Madrid í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í Kiev 26. maí 2018.

Í bæði skiptin var um einn úrslitaleik að ræða. Það hefur aftur á móti enginn séð við Jürgen Klopp í tveggja leikja einvígi.

Jürgen Klopp tapaði síðast tveggja leikja einvígi í Evrópukeppni þegar hann var stjóri Borussia Dortmund. Þýska liðið féll þá út á móti ítalska félaginu Juventus í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar 2014-15.  

Hér fyrir neðan má sjá yfirlit yfir þessa mögnuðu sigurgöngu Liverpool í tveggja leikja einvígum undir stjórn Jürgen Klopp.Tveggja leikja einvígi Liverpool í Evrópukeppni undir stjórn Jürgen Klopp:

Evrópudeildin 2015-2016:

32 liða úrslit: Liverpool sló út Augsburg frá Þýskalandi (1-0 samanlagt)
Fyrri leikur: 0-0 jafntefli á útivelli
Seinni leikur: 1-0 sigur á heimavelli  

16 liða úrslit: Liverpool sló út Manchester United frá Englandi (3-1 samanlagt)
Fyrri leikur: 2-0 sigur á heimavelli
Seinni leikur: 1-1 jafntefli á útivelli

Átta liða úrslit: Liverpool sló út Borussia Dortmund frá Þýskalandi (5-4 samanlagt)
Fyrri leikur: 1-1 jafntefli á útivelli
Seinni leikur: 4-3 sigur á heimavelli

Undanúrslit: Liverpool sló út Villarreal frá Spáni (3-1 samanlagt)
Fyrri leikur: 1-0 tap á útiveli
Seinni leikur: 3-0 sigur á heimavelli


Meistaradeildin 2017-2018

Sextán liða úrslit: Liverpool sló út Porto frá Portúgal (5-0 samanlagt)
Fyrri leikur: 5-0 sigur á heimavelli
Seinni leikur: 0-0 jafntefli á útivelli

Átta liða úrslit: Liverpool sló út Manchester City frá Englandi (5-1 samanlagt)
Fyrri leikur: 3-0 sigur á heimavelli
Seinni leikur: 2-1 sigur á útivelli

Undanúrslit: Liverpool sló út Roma frá Ítalíu (7-6 samanlagt)
Fyrri leikur: 5-2 sigur á heimavelli
Seinni leikur: 4-2 tap á útivelli


Meistaradeildin 2018-2019

Sextán liða úrslit: Liverpool sló út Bayern München frá Þýskalandi (3-1 samanlagt)
Fyrri leikur: 0-0 jafntefli á heimavelli
Seinni leikur: 3-1 sigur á útivelliAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.