Fótbolti

Klopp hefur ekki tapað tveggja leikja einvígi í Evrópu sem stjóri Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool.
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool. Getty/Chris Brunskill
Liverpool er komið í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar eftir að hafa haft betur í tveimur leikjum á móti þýska liðinu Bayern München. Knattspyrnustjórinn Jürgen Klopp hélt þar áfram sigurgöngu sinni í Evrópukeppninni.

Jürgen Klopp settist í stjórastólinn hjá Liverpool í október 2015 og síðan hefur liðið komist í úrslitaleikinn í báðum Evrópukeppnum sínum undir stjórn Þjóðverjans. Fyrst í úrslitaleik Evrópudeildarinnar vorið 2016 og svo í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í gær.

Liverpool var ekki í neinni Evrópukeppni tímabilið 2016-17 en komst árið eftir í Meistaradeildina í fyrsta sinn síðan 2014-15 tímabilið. Liverpool er nú komið í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar annað árið í röð.

Sigurinn á Bayern München í gær þýðir að Liverpool-liðið hefur unnið öll átta tveggja leikja einvígi sín í Evrópukeppni undir stjórn Jürgen Klopp.

Tvö lið hafa slegið Liverpool út í Evrópukeppni, fyrst Sevilla í úrslitaleik Evrópudeildarinnar í Basel 18. maí 2016 og svo Real Madrid í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í Kiev 26. maí 2018.

Í bæði skiptin var um einn úrslitaleik að ræða. Það hefur aftur á móti enginn séð við Jürgen Klopp í tveggja leikja einvígi.

Jürgen Klopp tapaði síðast tveggja leikja einvígi í Evrópukeppni þegar hann var stjóri Borussia Dortmund. Þýska liðið féll þá út á móti ítalska félaginu Juventus í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar 2014-15.  

Hér fyrir neðan má sjá yfirlit yfir þessa mögnuðu sigurgöngu Liverpool í tveggja leikja einvígum undir stjórn Jürgen Klopp.



Tveggja leikja einvígi Liverpool í Evrópukeppni undir stjórn Jürgen Klopp:

Evrópudeildin 2015-2016:

32 liða úrslit: Liverpool sló út Augsburg frá Þýskalandi (1-0 samanlagt)

Fyrri leikur: 0-0 jafntefli á útivelli

Seinni leikur: 1-0 sigur á heimavelli  

16 liða úrslit: Liverpool sló út Manchester United frá Englandi (3-1 samanlagt)

Fyrri leikur: 2-0 sigur á heimavelli

Seinni leikur: 1-1 jafntefli á útivelli

Átta liða úrslit: Liverpool sló út Borussia Dortmund frá Þýskalandi (5-4 samanlagt)

Fyrri leikur: 1-1 jafntefli á útivelli

Seinni leikur: 4-3 sigur á heimavelli

Undanúrslit: Liverpool sló út Villarreal frá Spáni (3-1 samanlagt)

Fyrri leikur: 1-0 tap á útiveli

Seinni leikur: 3-0 sigur á heimavelli



Meistaradeildin 2017-2018

Sextán liða úrslit: Liverpool sló út Porto frá Portúgal (5-0 samanlagt)

Fyrri leikur: 5-0 sigur á heimavelli

Seinni leikur: 0-0 jafntefli á útivelli

Átta liða úrslit: Liverpool sló út Manchester City frá Englandi (5-1 samanlagt)

Fyrri leikur: 3-0 sigur á heimavelli

Seinni leikur: 2-1 sigur á útivelli

Undanúrslit: Liverpool sló út Roma frá Ítalíu (7-6 samanlagt)

Fyrri leikur: 5-2 sigur á heimavelli

Seinni leikur: 4-2 tap á útivelli



Meistaradeildin 2018-2019

Sextán liða úrslit: Liverpool sló út Bayern München frá Þýskalandi (3-1 samanlagt)

Fyrri leikur: 0-0 jafntefli á heimavelli

Seinni leikur: 3-1 sigur á útivelli




Fleiri fréttir

Sjá meira


×