Innlent

Atburðarás dagsins: Frá Stjórnarráðinu til Bessastaða

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir verður tímabundið ráðherra fjögurra málaflokka eftir að hún tók við dómsmálaráðuneytinu á Bessastöðum síðdegis. Fráfarandi dómsmálaráðherra segir mannréttindadómstólinn hafa sætt gagnrýni frá ýmsum ríkjum fyrir framsækna lagatúlkun.

Líkt og kunnugt er sagði Sigríður Á Andersen af sér sem dómsmálaráðherra í gær í framhaldi af dómi Mannréttindadómstóls Evrópu sem komst að þeirri niðurstöðu að ólöglega hafi verið staðið að skipan dómara við Landsrétt. Ríkisstjórnin kom saman til fundar í Stjórnarráðinu klukkan níu í morgun og stóð fundurinn í tæpar þrjár klukkustundir.

Ráðherraskipan var ekki til umfjöllunar á ríkisstjórnarfundinum í morgun en staða Landsréttar rædd lítillega. Að ríkisstjórnarfundi loknum sagðist Sigríður skilja sátt með sín störf í dómsmálaráðuneytinu, hún muni áfram gegna þingstörfum að heilum hug en að svo stöddu liggur ekki fyrir í hvaða þingnefndum hún mun taka sæti.

Þingflokksfundur Sjálfstæðisflokksins fór fram klukkan hálf þrjú og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins ræddi við fjölmiðla á Alþingi að honum loknum. Þar upplýsti Bjarni að Þórdís Kolbrún muni tímabundið taka við hlutverki dómsmálaráðherra, Samhliða mun Þórdís áfram gegna embætti ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra þar til ráðrúm hefur gefist til að finna út úr því hver taki við dómsmálaráðuneytinu.

Ráðherrar mættu svo einn af öðrum til Bessastaða þar sem ríkisráðsfundur hófst klukkan fjögur. Gert var hlé á ríkisráðsfundi og vék Sigríður af fundinum eftir að hafa fengið lausn frá embætti.


Tengdar fréttir

Telur að Þórdís Kolbrún verði áfram dómsmálaráðherra

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, telur að Þórdís Kolbrún sitji áfram sem dómsmálaráðherra, þó nú sé talað um tímabundna lausn mála. Sjálfstæðisflokkurinn þurfi að ákveða taki við öðrum ráðherraembættum Þórdísar.

Þórdís Kolbrún tekur við sem dómsmálaráðherra

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra tekur við sem dómsmálaráðherra af Sigríði Á. Andersen. Þórdís kemur til með taka við embættinu tímabundið ásamt öðrum störfum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×