Erlent

Banda­ríkja­stjórn leggur refsi­að­gerðir á starfs­menn Al­þjóða­saka­mála­dóm­stólsins

Kjartan Kjartansson skrifar
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, þegar hann tilkynnti um aðgerðirnar í dag.
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, þegar hann tilkynnti um aðgerðirnar í dag. Vísir/EPA

Utanríkisráðherra Bandaríkjanna tilkynnti í dag að bandarísk yfirvöld ætli að takmarka landvistarleyfi einstaklinga sem tengjast mögulegum rannsóknum Alþjóðasakamáladómstólsins á stríðsglæpum bandarísks herliðs eða bandalagsríkja.

Dómarar Alþjóðasakamáladómstólsins ígrunda nú kröfu saksóknara við dóminn um að rannsaka meinta stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyninu sem hafa verið framdir í Afganistan frá því að Bandaríkin og bandalagsríki þeirra réðust þar inn árið 2003.

Í september lýsti ríkisstjórn Donalds Trump Bandaríkjaforseta því yfir að ef dómstóllinn hæfi rannsókn á stríðsglæpum í Afganistan íhugaði hún að bann dómara og saksóknara frá því að koma til Bandaríkjanna, frysta fjármuni þeirra og sækja þá til saka fyrir bandarískum dómstólum, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Mike Pompeo, utanríkisráðherra, fylgdi þeirri hótun eftir í dag þegar hann tilkynnti um að landvistarheimildir hvers þess sem ætti þátt í rannsókn dómstólsins á bandarísku herliði yrðu takmarkaðar. Þær aðgerðir gætu einnig beinst að þeim sem hæfu rannsókn á bandalagsríkjum eins og Ísrael.

„Þessar landvistarleyfistakmarkanir verða ekki síðasta orð okkar í þessum efnum. Við erum tilbúin að grípa til frekari aðgerða, þar á meðal efnahagsþvingana, ef Alþjóðasakamáladómstóllinn skiptir ekki um stefnu,“ sagði Pompeo.

Andrea Prasow, einn stjórnandi mannréttindasamtakanna Mannréttindavaktarinnar, segir að tilkynning Bandaríkjastjórnar sé „óþokkaleg tilraun til þess að refsa rannsakendum“. Hún sendi pyntingarmeisturum og morðingjum skilaboð um að þeir geti haldið glæpum sínum áfram áhyggjulausir.
Alþjóðasakamáladómstóllinn var stofnaður árið 2002 og var ætlað að sækja til saka þá sem gerast sekir um stríðsglæpi, þjóðarmorð eða glæpi gegn mannkyninu þegar ríki annað hvort geta ekki eða vilja ekki ákæra þá sjálf. Bandaríkin, Kína og Rússland eru ekki aðilar að dómstólnum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.