Enski boltinn

Býst við að spila átta liða úrslitin á nýja vellinum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Mauricio Pochettino langar heim.
Mauricio Pochettino langar heim. vísir/getty
Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Tottenham, býst við því að spila átta liða úrslitin í Meistaradeildinni á nýjum heimavelli liðsins sem á enn eftir að taka í gagnið.

Tottenham er búið að spila alla heimaleiki sína á Wembley í vetur þar sem dregist hefur að opna nýjan og glæsilegan heimavöll liðsins en það fer að styttast í opnun.

Pochettino kom Tottenham í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar með glæsibrag en liðið vann Dortmund, 1-0, á útivelli í gærkvöldi og einvígið samanlagt, 4-0, eftir stórsigur á Wembley í fyrri leiknum.

Dregið verður til átta liða úrslitanna 15. mars en leikirnir verða spilaðir 9.-10. apríl og 16.-17. apríl.

„Ég býst við því að spila á nýja vellinum. Ósk mín er að spila þar,“ sagði Pochettino við blaðamenn eftir sigurinn í gær.

Næsti heimaleikur Tottenham á að vera á móti Brighton 7. apríl en þá er Wembley upptekinn vegna undanúrslita bikarsins en báðir undanúrslitaleikirnir eru ávallt spilaðir á Wembley.

Þeim leik þarf hvort sem er að breyta ef Brighton vinnur Millwall í átta liða úrslitum bikarsins þannig að fyrsti leikur Tottenham á nýja vellinum verður líklega annað hvort á móti Huddersfield í deildinni 13. apríl eða í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar.


Tengdar fréttir

Pochettino: Lloris var frábær

Mauricio Pochettino hrósaði markverði sínum Hugo Lloris eftir 1-0 sigur Tottenham á Borussia Dortmund í Meistaradeild Evrópu.

Úrvalsdeildin setur Tottenham afarkosti

Tottenham mun ekki fá að spila á nýja heimavelli sínum á þessu tímabili nema hann verði tilbúinn fyrir næsta heimaleik. Enska úrvalsdeildin færði félaginu þessi tíðindi í dag




Fleiri fréttir

Sjá meira


×